Erlent

Obama segir Trump ekki hæfan til að gegna embætti forseta

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. Vísir/EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, sé ekki hæfur til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.

Obama lét orðin falla á fundi með fréttamönnum eftir fund hans og forsætisráðherra Singapúr fyrr í dag.

Í frétt ABC kemur fram að forsetinn hafi jafnframt sagt að Trump hafi sýnt fram á að hann sé „uggvænlega óundirbúinn til að sinna starfinu“ eftir ummæli hans um Khan-fjölskylduna og orð hans um utanríkismál.

Obama gagnrýndi Trump harðlega fyrir að hafa ráðist gegn fjölskyldu fallins hermanns sem hafi fært ótrúlegar fórnir fyrir Bandaríkin, og sagði hann ekki búa yfir grundvallarþekkingu á mikilvægum málum sem snerta Evrópu, Miðausturlönd og Asíu. Bendi þetta til að hann sé uggvænlega óundirbúinn til að sinna starfi forseta.

Obama gagnrýndi jafnframt marga leiðtoga Repúblikanaflokksins sem hafa margir fordæmt orð Trump en halda engu að síður áfram að styðja hann til að gegna embætti forseta. „Það hlýtur að koma að því að menn hugsi að þetta sé ekki maður sem þeir styðji til að gegna embætti forseta, jafnvel þó að hann sé í sama flokki og þeir,“ sagði Obama.


Tengdar fréttir

Hver var Humayun Khan?

Bandarískur hermaður sem fórst í sprengingu í Írak 2004 hefur óvænt orðið að leikanda í kosningabaráttunni vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×