Erlent

Obama segir Katrínu hafa opinberað ójöfnuðinn

sveinn arnarson skrifar
Barack Obama og Mitch Landrieu, borgarstjóri New Orleans, heimsóttu íbúa á meðan á dvöl Obama stóð.
Barack Obama og Mitch Landrieu, borgarstjóri New Orleans, heimsóttu íbúa á meðan á dvöl Obama stóð. NordicPhotos/AFP
Þessa dagana minnast margir þess að tíu ár eru liðin frá því að fellibylurinn Katrína skall með fullum þunga á New Orleans í Bandaríkjunum. Fellibylurinn sjálfur olli gífurlegum skemmdum þegar hann kom á land þann 29. ágúst 2005, en ástandið versnaði snögglega þegar varnarveggir gáfu sig undan afli sjávar.

Barack Obama kom til New Orleans síðastliðinn fimmtudag og ræddi við borgarbúa af þessu tilefni. Obama sagði í ræðu sinni að fellibylurinn hefði opinberað misréttið sem hafði gerjast í áratugi. „New Orleans hefur í áratugi verið illa haldin af ójöfnuði,“ sagði forsetinn. „Ójöfnuði sem hefur skilið of margt fólk, sérstaklega fátækt fólk og svarta, eftir atvinnulaust eða án heilsugæslu eða góðs húsnæðis. Of mörg börn hafa alist upp umkringd ofbeldisglæpum þar sem þeim hefur boðist slæm menntun og fá þeirra hafa haft tækifæri til að brjótast úr viðjum fátæktar.“

Bandarísk stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir aðstoðina sem var veitt þegar fellibylurinn fór yfir New Orleans. Neyðaraðstoð og hjálpargögn bárust seint og illa, gripdeildir, þjófnaðir og óeirðir blossuðu upp eftir fellibylinn og skálmöld ríkti á götum borgarinnar. Endurbygging borgarinnar varð einnig mjög kostnaðarsöm og mörgum íbúum New Orleans fannst hún ganga of hægt. Rétt eins hefur gagnrýnin verið á þá leið að uppbygging borgarinnar hafi að mestu leyti verið í þágu hvítra íbúa á kostnað svartra.

Ójöfn staða kynþátta í New Orleans eftir fellibylinn hefur verið í umræðunni um nokkurt skeið og að mörgu leyti varpað ljósi á skuggahliðar bandarísks samfélags. Bandarískt þjóðfélag hefur á síðustu misserum þurft að takast á við vandamál kynþáttahyggju sem öllum virðast vera ljós. Lögregluofbeldi gegn svörtum drengjum og aftaka lögreglumanns á Michael Brown, þeldökkum unglingi í Ferguson, vakti bandarískt samfélag svo um munaði.

Um 80 prósent borgarinnar urðu sjónum að bráð og voru götur borgarinnar sums staðar á sex metra dýpi. Alls létu 1.883 lífið af völdum fellibylsins, þar af langflestir í New Orleans. Talið er að tjón vegna Katrínu hafi numið um 150 milljörðum dala, sem samsvarar um 19.500 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×