Erlent

Obama segir að ráðstefnan í París gæti markað þáttaskil

Atli Ísleifsson skrifar
Fulltrúar frá 195 ríkjum munu á næstu tveimur vikum reyna að komast að samkomulagi.
Fulltrúar frá 195 ríkjum munu á næstu tveimur vikum reyna að komast að samkomulagi. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að loftslagsráðstefnan í París gæti markað þáttaskil í hinni alþjóðlegu baráttu að takmarka frekari hækkun hitastigs á jörðinni.

Fulltrúar frá 195 ríkjum munu á næstu tveimur vikum reyna að komast að samkomulagi sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og takmarka hækkun hitastig um tvær gráður.

Í frétt BBC kemur fram að leiðtogar 147 ríkja munu ávarpa fundinn og sagði Obama að loftslagsbreytingar gætu mögulega orðið sá þáttur sem einna helst móti 21. öldina. Hvatti hann samningamenn til að ná þýðingarmiklu samkomulagi þar sem „næsta kynslóð fylgist með“.

„Ég kom hingað til að koma því á framfæri að Bandaríkin viðurkenna ekki einungis vandamálið heldur eru staðföst í því að gera eitthvað í því.“

Forsetinn lagði jafnframt áherslu á að síðustu ár hafi sýnt fram á að efnahagslegur vöxtur og umhverfisvernd væru ekki í andstöðu hvort við annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×