Erlent

Obama ræðst á frambjóðendur Repúblikana

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama hefur sótt Afríkuríkin Kenýa og Eþíópíu heim síðustu daga.
Barack Obama hefur sótt Afríkuríkin Kenýa og Eþíópíu heim síðustu daga. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að árásir þeirra sem sækjast eftir að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins á sig vera bæði svívirðilegar og sorglegar. Þá segist hann ekki líka við þá orðræðu sem hefur einkennt umræðuna í kosningabaráttunni.

Obama lét orði falla á fundi í Eþíópíu fyrr í dag eftir að Repúblikaninn og forsetaframbjóðandinn Mick Huckabee sakaði forsetann um að leiða Ísraela að „hurð ofnsins“ með nýlegu samkomulagi sem gert var við Írani um kjarnorkuáætlun landsins.

Vísar Huckabee þar til þeirra gasofna sem nasistar notuðust við til að drepa milljónir gyðinga í útrýmingarbúðum í seinni heimsstyrjöldinni.

Obama sagði ljóst að Huckabee væri að reyna að ná athygli fjölmiðla eftir að mótframbjóðandi hans, Donald Trump, hefur stjórnað umræðunni í fjölmiðlum með hinum ýmsu ummælum sínum síðustu misserin.

Obama beindi einnig sjónum sínum að Trump og eðli kosningabaráttu hans. Sagði forsetinn að slík orðræða, sem miði einungis að því að ná athygli líkt og Bandaríkjamenn hafa orðið vitni að síðustu mánuði, sé orðin allt of algeng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×