Erlent

Obama og Trump funduðu í einn og hálfan tíma: „Við viljum að þeim líði eins og þau séu velkomin“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Trump og Obama takast í hendur eftir fund þeirra í dag.
Trump og Obama takast í hendur eftir fund þeirra í dag. vísir/getty
Þeir Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Donald Trump, sem mun taka við embættinu af Obama í janúar, hittust í fyrsta sinn á fundi í Hvíta húsinu nú síðdegis. Fundurinn varði í um einn og hálfan tíma en Trump sagði að upphaflega hefðu þeir ekki gert ráð fyrir að funda í meira en korter. Þeir hefðu hins vegar haft nóg að ræða.

Obama sagði við fjölmiðlamenn eftir fundinn að þeir hefðu meðal annars rætt utanríkismál og innanríkismál. Hann sagði það forgangsatriði að það gengi vel að skipta um forseta svo að Trump gæti orðið farsæll í embætti.

„Ef hann verður farsæll þá mun landið njóta farsældar,“ sagði Obama.

Þá sagði forsetinn jafnframt að það væri hvetjandi að heyra að Trump væri tilbúinn til að vinna með teymi Obama að ýmsum þeirra mála sem Bandaríkin standa frammi fyrir.

„Það er mikilvægt fyrir öll okkar að koma núna saman og vinna saman,“ sagði Obama og bætti við að á meðan þeir Trump ræddust við hafi eiginkonur þeirra, þær Michelle og Melania, rætt saman.

„Við viljum að þeim líði eins og þau séu velkomin,“ sagði Obama.

Trump tók síðan til máls og sagði að þetta væri í allra fyrsta sinn sem þeir Obama hittust. Hann sagði að þeir hefðu getað rætt saman mun lengur en þennan eina og hálfa tíma sem fundur þeirra varði. Þá kvaðst hann hlakka til að ræða við Obama í framtíðinni en sagði að sumt af því sem þeir ræddu í hefði verið gott og annað erfitt.

„Herra forseti, það var mikill heiður að vera með þér í dag,“ sagði Trump.

Fram kemur á vef Wall Street Journal að Obama-hjónin hafi hætt við myndatöku með Trump-hjónunum sem taka átti af þeim við suðurinngang Hvíta hússins eftir fundinn.


Tengdar fréttir

Trump lofar að sýna öllum sanngirni

Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna og heitir því að verða forseti allra Bandaríkjamanna. Hillary Clinton, sem tapaði þrátt fyrir að hafa fengið fleiri atkvæði, vonast til þess að hann muni reynast vel en segir úrslitin sár




Fleiri fréttir

Sjá meira


×