Erlent

Obama og Trump funda í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Barack Obama.
Donald Trump og Barack Obama. Vísir/Getty
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun í dag funda með Donald Trump, sem kjörinn var í embætti forseta í gær. Á fundinum munu þeir ræða komandi valdaskipti í janúar. Líklegt þykir að fundurinn verði vandræðalegur þar sem Trump hefur varið árum í að draga réttmæti Obama sem forseta í efa og Obama hefur gert mikið grín að Trump á síðustu mánuðum.

Trump leiddi „birther“ hreyfinguna svokölluðu sem dró í efa að Obama væri í raun bandarískur ríkisborgari. Jafnvel eftir að Obama birti fæðingarvottorð sitt sagðist Trump hafa „áreiðanlegar heimildir“ fyrir því að vottorðið væri falsað.

Obama segir þó mikilvægt að valdaskiptin gangi vel og segist ætla að fylgja fordæmi George WBush. Hann segir að þegar hann var kjörinn forseti deildu hann og Bush mikið og um margt.

„En teymi Bush hefði ekki geta verið fagmannlegra eða vinsamlegra til að tryggja að valdaskiptin gegnu vel fyrir sig,“ sagði Obama. Hann hefur nú skipað sínu teymi að tryggja hið sama.

Trump hefur heitið því að draga til baka margar af stefnum og tilskipunum Obama. Má þar nefna aðkomu Bandaríkjanna að Parísar samkomulaginu, heilbrigðiskerfisbreytingar Obama og kjarnorkusamkomulagið við Íran.

Josh Earnest, talsmaður Obama, sagði að forsetinn myndi ræða við Trump um jákvæð áhrif þessara mála. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×