Erlent

Obama hyggst skattleggja tekjur fyrirtækja utan Bandaríkjanna

ingvar haraldsson skrifar
Obama hyggst skattleggja tekjur fyrirtækja utan Bandaríkjanna
Obama hyggst skattleggja tekjur fyrirtækja utan Bandaríkjanna vísir/ap
Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst leggja 14 prósent skatt á tekjur bandarískra fyrirtækja sem þau hafa aflað erlendis. Skatturinn er hluti af nýju fjárlagafrumvarpi sem kynnt verður í dag, mánudag.

Stjórn Obama áætlar að skatturinn muni skila 31 þúsund milljörðum íslenskra króna. Féð verður nýtt til þess að efla vegakerfi Bandaríkjanna sem víða er í molum.

Eignir stórfyrirtækja í skattaskjólum erlendis hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu en óskattlagðar tekjur bandarískra fyrirtækja erlendis eru taldar nema  133 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Skatturinn verður svokallaður einskiptisskattur, og verður því einungis lagður á einu sinni. Eftir að hafa greitt skattinn geta fyrirtæki komið með féð inn til Bandaríkjanna á ný án þess að greiða af því frekari skatt. Með því vonast Obama til þess að fyrirtækin komi með erlendar tekjur sínar til Bandaríkjanna.

Óvíst er hvort tillagan komist í gegnum þingið því repúblikanar stýra báðum deildum þingsins sem hafa flestir verið miklir andstæðingar Obama sem er demókrati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×