Erlent

Obama gagnrýndur fyrir 42 milljóna króna ræðu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Barack Obama í háskólanum í Chicago í gær.
Barack Obama í háskólanum í Chicago í gær. Vísir/Getty
Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti sætir nú gagnrýni fyrir að þiggja 400 þúsund bandaríkjadala, eða sem nemur 42,6 milljónum íslenskra króna, fyrir að halda fyrirlestur fyrir banka á Wall Street.

Fyrirlesturinn sem um ræðir er hluti af heilbrigðisráðstefnu í september sem skipulögð er af bankanum Cantor Fitzgerald.

Þóknunin sem Obama fær fyrir fyrirlesturinn er nær tvöfalt hærri en þeir 225 þúsund sem Hillary Clinton fékk fyrir þrjár ræður hjá Goldman Sachs fjárfestingabankanum árið 2015. Hún var harðlega gagnrýnd fyrir ræðurnar í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra.

Margir gagnrýna ákvörðun Obama um að koma fram fyrir Cantor Fitzgerald og segja að það skjóti skökku við það sem hann hefur áður sagt um áhrif fjármálaheimsins á stjórnmál í Bandaríkjunum.

„Ég fór ekki í framboð til að hjálpa einhverjum feitum köttum á Wall Street,“ sagði hann til að mynda í viðtali við CBS árið 2009.

Obama lét af embætti forseta Bandaríkjanna þann 22. janúar síðastliðinn. Hann hefur látið lítið fyrir sér fara síðan þá en kom í gær fyrst fram opinberlega frá starfslokum. Hann ræddi við unga leiðtoga í háskólanum í Chicago um mikilvægi stjórnmálaþátttöku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×