Erlent

Obama: Ég myndi vinna næstu forsetakosningar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Obama fór um víðan völl í ávarpi sínu
Obama fór um víðan völl í ávarpi sínu Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti telur að hann yrði kosinn á nýjan leik sem forseti Bandaríkjanna ef bandaríska stjórnarskráin myndi leyfa honum það.

„Ég tel mig vera nokkuð góðan forseta. Ég hugsa að ef ég biði mig fram aftur myndi ég vinna. En ég má það ekki.“

Þetta sagði Barack Obama í gamansömum tón er hann varð fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til þess að ávarpa Afríkubandalagið í höfuðstöðvum þess í Addis Ababa í Eþíópíu. Obama lauk þar með heimsókn sinni til Kenýa og Eþiópíu sem staðið hefur yfir í 5 daga. Honum var þó fúlasta alvara þegar hann minnti leiðtoga Afríkuríkja á að það væri ástæða fyrir því að bandaríska stjórnarskráin heimilaði aðeins að forseti Bandaríkjanna gæti setið í tvö kjörtímabil.

„Sterk rödd Afríkubandalagsins og áhrif getur hjálpað íbúum Afríku til þess að tryggja að leiðtogar þeirra fylgi þeim leikreglum sem stjórnarskrár ríkja þeirra setja. Enginn ætti að vera lífstíðarforseti. Ríki ykkar eru betur sett ef nýtt blóð og ferskar hugmyndir komast að. Ég er nokkuð ungur maður en ég veit að það verður gott fyrir land mitt þegar einhver með nýjar hugmyndir sest í embætti mitt.“

„Ég verð að segja að lýðræðisþróun í Afríku er stefnt í hættu þegar leiðtogar neita að stíga til hliðar þegar kjörtímabili þeirra lýkur. Nelson Mandela og George Washington, byggðu upp arfleið sína, ekki bara með því sem þeir afrekuðu í embætti, heldur einnig vegna þess að þeir voru tilbúnir til þess að afsala sér völdum á friðsaman hátt.“

„Þegar að leiðtogi reynir að breyta leikreglum samfélags síns til þess að tryggja veru sína í embætti skapar það hættu á óstöðugleika og deilu, eins og við höfum orðið vitni að í Búrúndí. Oft á tíðum er þetta fyrsta skrefið niður háskalega braut.“

Forseti Búrúndí, Pierre Nkurunziza, var í síðustu viku kjörinn þriðja kjörtímabilið í röð sem forseti þrátt fyrir að stjórnarskrá ríkisins heimili aðeins að forseti sitji í tvö kjörtímabil. Jafnframt þykir líklegt að takmarkanir á kjörgengi til forsetaembættis í Rúanda verði aflétt sem mun gera Paul Kagame kleyft að sækjast eftir kjöri til forseta Rúanda í þriðja sinn en hann er á sínu öðru kjörtímabili og því síðasta sem samkvæmt núgildandi stjórnarskrá lýkur árið 2017.



Mikilvægt að konur njóti jafnra tækifæra

Obama fór um víðan völl í ávarpi sínu og snerti á viðskipta- og öryggismálum en einnig endurómaði hann mikilvægi þess að konur og stúlkur fái jöfn tækifæri og menn og drengir til að taka þátt í samfélaginu

„Þegar stúlkur fá ekki að ganga í skóla og alast upp án þess að læra að lesa eða skrifa rænum við heiminn af verkfræðingum, læknum, viðskiptakonum og forsetum framtíðarinnar. Það er bakslag fyrir alla. Það er slæm hefð að veita stúlkunum okkar ekki sömu tækifæri og drengir fá.“

„Líkt og ég sagði í Kenýu, enginn myndi stilla upp knattspyrnuliði og aðeins nota helminginn af leikmönnunum. Maður myndi tapa. Það sama gildir þegar kemur að því að veita öllum menntun. Það er ekki hægt að skilja helminginn eftir, ungu stúlkurnar okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×