Innlent

Óákveðið hvernig haldið verður upp á vitaafmælið

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ásgeir Hjálmarsson.
Ásgeir Hjálmarsson. Vísir/Jón Sigurður
Það tók tíu til fimmtán manna vinnuhóp Sigurðar Péturssonar frá Sauðárkróki einungis þrjá mánuði að reisa nýja Garðskagavita árið 1944. Hann fagnar nú 70 ára afmæli þann 10. september næstkomandi.

Ekki er rótt að sigla um Garðskaga svo fljótlega varð mönnum ljós þörfin á vísiljósi þar. Árið 1884 var hlaðin grjótvarða á skaganum og sett upp í hana lukt sem lýsti sjófarendum.

En Stilhoff, skipstjóri á póstskipinu Sölöven, fór svo að berjast fyrir því að reistur yrði almennilegur viti á staðnum. „Honum entist þó ekki ævi til að sjá það verða að veruleika en hann fórst við Svörtuloft á Snæfellsnesi,“ segir Ásgeir Hjálmarsson en hann var lengi umsjónarmaður Byggðasafnsins sem stendur rétt við vitana tvo á Garðskaga.

Hér eru finnskir vitavinir uppi í nýja vitanum á Garðskaga sem þrátt fyrir viðurnefnið er kominn á virðulegan aldur.mynd/friðrik ómar
Gamli vitinn var síðan reistur árið 1897 og segir Ásgeir að þá hafi hann verið um hundrað metra uppi í landi. Það er ótrúleg tilhugsun fyrir þá sem sjá hann í dag umluktan greipum Ægis á skeri við flæðarmálið. Landbrot var svo ört að árið 1912 varð að gera gangbrú út í vitann en þegar brim voru mikil gat vitavörður hæglega orðið veðurtepptur úti í vitanum.

Nýi vitinn, sem svo er kallaður á Garðskaga þrátt fyrir virðulegan aldur, var vitanlega reistur lengra uppi í landi og hann varð að vera hár því nesið er lágt. Hann er tæpir 29 metrar og er því hæsti viti landsins, að sögn Ásgeirs.

Síðasti vitavörður þar er reyndar viðmælanda okkar vel kunnur því það er tengdafaðir Ásgeirs, Guðni Ingimundarson. Hann hætti árið 2004.

Nú er afar vinsælt meðal ferðamanna að fá að fara upp í vitann en Ásgeir bendir á að það sé ekkert nýtt að hann laði forvitna að.

„Til er pappírsspjald frá Sigurbergi Þorleifssyni sem var vitavörður frá 1951 til 1977 þar sem á stendur að það kosti eina krónu að fá að fara upp í vitann,“ segir Ásgeir. „Sá peningur rann síðan í sjúkrasjóð vitavarða.“

Að sögn Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra í Garði, er ekki búið að ákveða hvernig eða hvort haldið verði upp á áfangann þann 10. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×