Gagnrýni

Ó, mikli leyndardómur og undraverða dásemdarverk

Jónas Sen skrifar
Tæknilega séð var söngurinn í fullkomnu styrkleikajafnvægi og ólíkar raddir voru prýðilega mótaðar, segir í dómnum.
Tæknilega séð var söngurinn í fullkomnu styrkleikajafnvægi og ólíkar raddir voru prýðilega mótaðar, segir í dómnum.
Tónlist



Kórtónleikar



Hallgrímskirkja



laugardagur 9. desember



Mótettukórinn söng blandaða jóladagskrá.



Einsöngvari: Elmar Gilbertsson. Orgelleikari: Björn Steinar Sólbergsson.



Stjórnandi: Hörður Áskelsson.







Jólatónleikar Mótettukórsins á laugardaginn voru ljúfir. Yfirskrift þeirra var O magnum mysterium, sem er titillinn á fornum jólasálmi. Mörg tónskáld hafa samið við hann tónlist og voru þrjú dæmi flutt á tónleikunum. Sálmurinn hljómar svo: „Ó, mikli leyndardómur og undraverða dásemdarverk, að dýrin skyldu mega sjá Drottin nýfæddan og liggjandi í jötu. Blessuð er mærin sem undir belti mátti bera Drottin Jesúm Krist. Hallelúja.“

Þessi sami sálmur var líka viðfangsefni sænska djasspíanóleikarans Jans Lundgren á tónleikum fyrr í vikunni. Hér var andrúmsloftið þó mun hátíðlegra, enda djassinn víðsfjarri. Tónskáldin sem um ræðir voru Victoria, Poulenc og Lauridsen. Sá fyrsti var uppi á tímum endurreisnarinnar, næsti lifði á fyrri hluta aldarinnar sem leið og sá síðastnefndi er enn á lífi. Gaman var að heyra mismunandi nálganir tónskáldanna. Allt frá voldugri fjölröddun Victorias, ljóðrænni en heitri rómantík Poulencs og íhugulli andakt Lauridsens.

Sálmarnir voru fallega sungnir af Mótettukórnum undir öruggri stjórn Harðar Áskelssonar. Fjölröddunin var tær, rómantíkin tilfinningaþrungin og notaleg fylling í síðastnefnda verkinu. Tæknilega séð var söngurinn í fullkomnu styrkleikajafnvægi og ólíkar raddir voru prýðilega mótaðar og samtaka.

Dagskráin var blönduð en öll helguð jólunum. Þar á meðal var lag eftir Hörð sjálfan sem nefndist Jólagjöfin og var ákaflega fallegt. Það hófst á alvörugefnum nótum en breyttist svo í fölskvalausa gleði sem var sérlega heillandi.

Elmar Gilbertsson tenór söng einsöng í nokkrum lögum og gerði það afar vel. Hann hefur fagra rödd, eins og margoft hefur komið í ljós, og hún naut sín fyllilega á tónleikunum. Túlkun hans var hlý og gædd friði og gleði, án nokkurrar tilgerðar. Fyrir bragðið streymdi tónlistin óheft í gegn og fékk að vera hún sjálf.

Björn Steinar Sólbergsson sat við orgelið. Leikur hans var yfirleitt hófsamur og viðeigandi. Helst mátti finna að heldur hvellri orgelrödd í Nóttin var sú ágæt ein eftir Sigvalda Kaldalóns. Að öðru leyti var spilamennskan hin ágætasta. Orgelforleikur eftir Reimerdes var til dæmis einkar hrífandi í meðförum Björns, fullur af alvöru og dýpt.

Eins og vaninn er á tónleikum Mótettukórsins fyrir jólin var ákveðið leikrit hluti af dagskránni. Kórinn var ekki bara á sviðinu heldur kom hann líka syngjandi inn í kirkjuna í upphafi tónleikanna. Hann tók sér jafnframt stöðu umhverfis tónleikagestina á einum tímapunkti, sem var áhrifamikið. Söngurinn umvafði tónleikagesti. Elmar gekk sömuleiðis syngjandi meðfram áheyrendabekkjunum í einu laginu. Þannig var hægt að njóta söngs hans úr mismunandi áttum, sem skapaði skemmtilega fjölbreytni.

Tónleikunum lauk á því að áheyrendur fengu að taka lagið með kór og einsöngvara. Í lokin var sungið Heims um ból, sem var svo mögnuð upplifun að nokkrir áheyrendur sáust fella tár. Maður gekk út úr kirkjunni í jólaskapi. Jónas Sen

Niðurstaða: Hátíðlegir tónleikar með fögrum kór- og einsöng.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×