Lífið

Nýtt risasvið á Secret Solstice

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Secret Solstice hátíðin fer sífellt stækkandi og næsta hátið verður sú stærsta hingað til.
Secret Solstice hátíðin fer sífellt stækkandi og næsta hátið verður sú stærsta hingað til. Vísir/Andri Marinó
Secret Solstice hátíðin mun á næsta ári verða töluvert viðameiri en síðustu ár, bæði verða þekktari nöfn þar en áður en einnig mun þar verða brúkað stærsta svið sem hefur verið flutt til landsins.

„Þetta er næstum því tvisvar sinnum stærra en stóra sviðið frá því á síðustu hátíð og það svið verður á næstu hátíð notað sem svið númer tvö,“ segir Friðrik Ólafsson, framkvæmdastjóri Secret Solstice hátíðarinnar.

Friðrik Ólafsson framkvæmdastjóri Secret Solstice hátíðarinnar. Fréttablaðið/Valli
„Þessi stóru bönd passa auðveldlega inn á þetta nýja svið. Í fyrra vildi Radiohead spila í myrkri og því fengu þeir að vera inni, en við erum búin að ákveða það hér með að þetta er sólstöðuhátíð og það verður spilað í sólinni. En við verðum áfram með tjöld undir danstónlistina og annað.

Eins og þetta verður sett upp núna komast allir sem vilja fyrir framan við stóru sviðin. Það hafa verið uppi vangaveltur hjá fólki um hvort það verði innitónleikar á næstu hátíð eins og síðast en það er á hreinu að svo verður ekki og auk þess mun það aldrei gerast aftur að fólk nái ekki að sjá aðalböndin.“

Er ástæðan fyrir því að þið fáið nú þetta nýja svið allar kvartanirnar sem bárust í fyrra í kringum innitónleika Radiohead?

„Nei, við ætluðum að fá þetta nýja svið í fyrra en það var ekki hægt að fá það þá. Þetta er mikil fjárfesting og mikil stækkun. Þetta svið er á svipuðu kalíberi og þau svið sem er verið að nota á stærstu hátíðunum úti.“

Á þessa nýja sviði munu meðal annars koma fram Foo Fighters og The Prodigy ásamt öðrum stórum böndum sem verður tilkynnt um síðar. Friðrik segir að síðustu tilkynningarnar verði ansi stórar enda hátíðin sífellt að stækka.

„Það eru sífellt þekktari nöfn sem hafa áhuga á að koma til landsins, spila á hátíðinni og upplifa miðnætursólina.“

Þegar er búið að greina frá nokkrum en næsta tilkynning kemur samkvæmt Friðriki væntanlega seint í næsta mánuði.

Aðrar nýjungar sem teknar verða í gagnið í sumar eru sérstakir upphækkaðir pallar fyrir VIP-gesti og flottari og öflugri barir sem munu setja svip á tónleikasvæðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×