Lífið

Nýtt myndband frá Hinemoa: „Þolinmæðin var þess virði“

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Við höfðum samband við fyrirtækið Arctic Project sem Skúli Andrésson og Sigurður Már Davíðsson eiga og fengum þá til að gera myndband fyrir okkur. Þeir fengu algjörlega lausan tauminn og við treystum þeim fyrir verkefninu,“ segir Kristófer Nökkvi Sigurðsson trommari í sveitinni Hinemoa sem frumsýnir myndbandið við lagið Bye Bye Birdie hér á Vísi.

Um er ræða þriðja lag hljómsveitarinnar og var það tekið upp af Stefáni Erni Gunnlaugssyni fyrr á þessu ári í stúdíóinu Aldingarðinum.

„Þeir áttu hugmyndavinnuna skuldlaust og reyndu að tengja myndbandið textann í laginu. Þeir voru reyndar mjög óheppnir með veður í sumar fyrir austan svo að myndbandið tafðist talsvert vegna veðurs.“

Myndbandið var tekið upp á austurlandi í kringum Djúpavog.

„Þolinmæðin var þess virði því við erum ótrúlega ánægð með útkomuna. Stelpan sem leikur í myndbandinu heitir Aldís Sigurjónsdóttir og er 10 ára frá Djúpavogi.“

Hinemoa er að semja efni fyrir komandi plötu en stefnan er að taka upp plötuna síðar á þessu ári. Næstu tónleikar Hinemoa verða í Tjarnarbíói 22. Ágúst, á menningarnótt.

Hinemoa er íslensk hljómsveit sem var stofnuð um vorið 2014. Hún er skilgreind sem einskonar órafmögnuð indie/folk/pop hljómsveit sem byggir á röddum og sterkum rythma. Í Hinemoa eru: Ásta Björg Björgvinsdóttir (gítar, ukulele and söngur), Rakel Pálsdóttir (gítar og söngur), Sindri Magnússon (Bassi) og Kristófer, Nökkvi Sigurðsson (slagverk).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×