Skoðun

Nýtt kennaranám, tækifæri og áskoranir

Jóhanna Einarsdóttir skrifar
Árið 2008 sameinuðust Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands (HÍ) og þar með varð til Menntavísindasvið (MVS) sem eitt af fimm fræðasviðum HÍ. Á MVS eru þrjár deildir: Kennaradeild, sem menntar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, Uppeldis- og menntunarfræðideild og Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild.

Við MVS starfa helstu sérfræðingar þjóðarinnar í menntamálum og gegna þeir mikilvægu hlutverki við mótun íslensks samfélags. Akademískir starfsmenn á Menntavísindasviði stunda rannsóknir sem geta haft mikla þýðingu fyrir starfshætti í skólum og stefnumótun í menntamálum. Þeir leggja sig fram um að birta rannsóknarniðurstöður sínar, ekki einungis í ritrýndum erlendum tímaritum, heldur ekki síður á innlendum vettvangi svo niðurstöðurnar geti betur nýst íslenskum kennurum og samfélaginu í heild.

Kennarar við MVS eru höfundar námsefnis sem kennt er í skólum landsins, þeir taka þátt í þróun aðalnámskrár og eru kallaðir til ráðgjafar í skólum, á vettvangi sveitarfélaga og menntamálaráðuneytis.

Betri kennarar

Með lögum frá Alþingi árið 2008 var nám kennara á öllum skólastigum lengt í fimm ára meistaranám. Sú lagasetning endurspeglar skilning yfirvalda á mikilvægi menntunar kennara fyrir gæði skólastarfs og með þeim lögum skipuðu Íslendingar sér í forystusveit í menntamálum á Norðurlöndum, ásamt Finnum. Samhliða lengingu kennaranámsins og sameiningu KHÍ við Háskóla Íslands hefur námið verið endurskoðað.

Auk áherslu á kennslufræði og tengsla við skólakerfið eru rannsóknir og fræðileg vinnubrögð ríkur þáttur í náminu, einkum á meistarastigi. Einnig stunda nú um áttatíu kandídatar doktorsnám við sviðið. Samstarf milli sviða og deilda HÍ hefur aukist og sömuleiðis samstarf við erlenda háskóla og eiga nemendur þess kost að sækja hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla.

Færri umsækjendur

Samfara lengingu kennaranámsins fækkaði töluvert umsóknum um nám við Kennaradeild. Á árunum 2003-2007 hófu að meðaltali 235 nemendur grunnskólakennaranám árlega og 102 leikskólakennaranám.

Ef tímabilið frá 2008-2012 er skoðað til samanburðar, kemur í ljós að veruleg fækkun hefur orðið en á því tímabili innrituðust að meðaltali 174 nemendur árlega í grunnskólakennaranám og að meðaltali 51 í leikskólakennaranám.

Þetta eru uggvænlegar tölur sem sýna að fækkun nýnema í grunnskólakennaranámi nemur 35% og 50% meðal nýnema í leikskólakennaranámi. Á sama tíma hefur börnum á leik- og grunnskólaaldri fjölgað hratt. Á næstu árum munum við jafnframt kveðja stóra árganga af starfandi kennurum sem fara munu á eftirlaun.

Snúum vörn í sókn

Öllum sem til þekkja má vera ljós brýn nauðsyn þess að tryggja nægilegt framboð af vel menntuðum kennurum á næstu árum. Hér þarf að snúa vörn í sókn. Allir foreldrar vilja vel menntaða kennara fyrir börnin sín og stjórnvöld vilja góða skóla. Til að svo megi verða þarf að tryggja nægilega nýliðun í þeim stéttum sem mennta börn og ungmenni þessa lands. Til þess þarf að breyta viðhorfum til kennarastarfsins.

Afar áríðandi er að kennaramenntastofnanir, sveitarfélög, fræðsluyfirvöld og samtök kennara taki höndum saman um átak til að vekja athygli ungs fólks á þeim fjölbreyttu og mikilvægu störfum sem kennarar vinna. Hér eru ótal sóknarfæri í þágu barna í þessu landi.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×