Viðskipti innlent

Nýtt Icelandair hótel við Mývatn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá húsnæðið.
Hér má sjá húsnæðið. mynd/aðsend
Icelandair hótel hafa fest kaup á fasteigninni sem nú hýsir hótel Reykjahlíð við Mývatn en þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Hótelið telur 9 herbergi og veitingasal og er staðsett á einstökum útsýnisstað við vatnið, í næstu grennd við þjónustukjarna Mývatnssveitar. Áform eru um að stækka hótelið og endurreisa sem glæsilegan gististað við þá einstöku náttúruperlu sem Mývatn er, og fjölmargir ferðamenn heimsækja ár hvert.

Icelandair hótel fá Hótel Reykjahlíð afhent nú í haust, en fram að þeim tíma verður rekstur hótelsins í höndum fyrrum eigenda þess sem jafnframt reka hótel Reynihlíð við Mývatn.

„Fjölgun herbergja ein og sér er ekki meginmarkmið Icelandair hótela. Við viljum hinsvegar leggja metnað í markvissa uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi með því að auka gæði hótelgistingar og veitingaþjónustu þar sem við stígum niður fæti,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela.

„Við leggjum sömuleiðis mikla áherslu á markaðssetningu landsbyggðar yfir vetrartímann og hlökkum til að eiga samstarf við Mývetninga um frekari þróun sveitarinnar sem þjónustusvæði fyrir innlenda jafnt og erlenda ferðamenn, allt árið um kring,” segir Magnea að lokum.

Icelandair hótel keðja hótela sem samanstendur af alls níu hótelum í heilsársrekstri um allt land. Önnur hótel keðjunnar eru Icelandair Hótel Reykjavík Natura, Reykjavík Marina, Hamar, Akureyri, Hérað, Klaustur, Vík, Flúðir og í Keflavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×