Innlent

Nýtt fyrirkomulag á flugeldasýningu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Á flugeldasýningum eru notaðir sérstakir sýningarflugeldar en nú verða notaðir þeir flugeldar sem eru í almennri sölu.
Á flugeldasýningum eru notaðir sérstakir sýningarflugeldar en nú verða notaðir þeir flugeldar sem eru í almennri sölu. vísir/stefán
Björgunarsveit Hafnarfjarðar bryddar upp á nýju fyrirkomulagi á flugeldasýningar sveitarinnar í ár. Undanfarin ár hefur verið haldin stór sýning 29. desember en nú í ár verða haldnar þrjár minni sýningar. Sú fyrsta fór fram í gær en hinar síðari verða í kvöld og á morgun. Báðar sýningarnar verða klukkan 20:30.

„Við höfum fengið jákvæð viðbrögð og mikinn skilning bæjarbúa,“ segir Anna María Daníelsdóttir meðlimur sveitarinnar. Sveitin er oft kölluð Spori í daglegu tali en Spori er kallmerki þeirrar.

Í yfirlýsingu frá björgunarsveitinni segir að ekki hafi verið hægt að halda stóra sýningu sökum hve kostnaðarsamt það sé. Illa hafi gengið að fá styrki frá fyrirtækjum og því hafi þetta verið niðurstaðan.

„Við ætlum að prófa þetta fyrirkomulag í ár. Svo verður það skoðað á næsta ári ,“ segir Anna og bætir við að það sé ekki eingöngu fyrirkomulagið sem sé öðruvísi heldur séu það annars konar rakettur sem fari á loft heldur en áður.

„Á stórum sýningum eru notaðir sérstakir sýningarflugeldar sem ekki eru í almennri sölu. Þetta eru í raun sölusýningar. Við höfum það fyrirkomulag núna að skjóta flugeldinum og samtímis sýnum við með aðstoð skjávarpa hvers konar söluvara það er sem sést hverju sinni.“

„Við gripum til þessa ráðs og það hefur gefið góða raun,“ segir Anna. „Við höfum lagt okkur fram við að þóknast fólki og íbúum í nágrenninu og vonandi sýnir fólk þessu skilning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×