Skoðun

Nýting ferðamannaauðlindar

Björg Árnadóttir skrifar
Oft er talað um túrista sem gráan massa, eins og hvern annan fiskistofn, eins og tölur í Hagtíðindum. Eftir tvö sumur við störf í Mývatnsstofu veit ég hvað ferðamenn á Íslandi eru ótrúlega fjölbreyttur hópur. Þjóðernum fer fjölgandi frá ári til árs sem og ástæðum fyrir komu ferðamanna, þeir koma lengra að nú en áður og efnahagur þeirra er mjög mismunandi. Undirbúningur fyrir þetta ferðalag, sem sumum er ævintýri lífsins, er líka afar misgóður.

Í gamla Kaupfélagshúsinu í Reykjahlíð er til húsa, ásamt upplýsingamiðstöðinni Mývatnsstofu, Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun með landverði sem vinna þarft verk við að kenna ferðamönnum að ganga um íslenska náttúru. Hingað koma hátt í tvö þúsund manns á dag yfir háannatímann og við fræðum ferðamennina og greiðum götu þeirra, en á ferðalagi um Ísland er hægt að rata í ótrúlegustu ógöngur. Það virðist fólki nauðsynlegt að láta hálfa ævisöguna fljóta með þegar það útskýrir hvers vegna það þarfnast hjálpar þó ekki sé nema við minni háttar vanda eins og sprungnu dekki.

Þess vegna fá starfsmenn upplýsingamiðstöðva góða innsýn í viðhorf ferðamanna til Íslands. Mér finnst það forréttindi að fá að umgangast hundruð jákvæðra og áhugasamra túrista á degi hverjum. Það kemur mér sífellt á óvart hvað fólk er ánægt.

Á leið í draumaferðina

Ég dáist að því hvað margir leggja mikið á sig til að kynnast landinu okkar; þeir ganga eða hjóla yfir hálendið í sextándu Íslandsferð sinni, sofa í tjöldum við frostmark og sækja íslenskunámskeið langt úti í löndum. Þetta eru ferðamenn sem nota netið og þurfa aðeins að sækja sértæka þekkingu til upplýsingamiðstöðvanna, en vita líka hve mikilvægt það er að tala við heimamenn um veður og færð.

Ég verð að segja að ég dáist líka að annars konar ferðamönnum, til dæmis fólki á miðjum aldri sem leggur á sig að sofa í fólksbíl í sjö nætur til að hafa efni á að fara í Öskjuferðina eða útsýnisflugið sem það dreymir um, þó að auðvitað vilji ég ekki að fólk þurfi að sofa í bílum og það sé reyndar bannað á náttúruverndarsvæðinu við Mývatn. Þetta fólk skríkir margt af ánægju og klappar saman lófunum af spenningi þegar það leggur upp í draumaferðina.

Mér sýnist hins vegar sá hópur fara stækkandi sem gæti allt eins verið lentur á tunglinu. Fólk sem þarf að fræða um allt sem viðkemur íslenskri náttúru, menningu og samgöngum frá grunni. Fólk sem þarf að útskýra fyrir hvernig landakort er lesið og til hvers fæturnir eru notaðir í landi þar sem almenningssamgöngur eru í mýflugumynd. Ég dáist líka að kjarki þessa fólks að taka sér á hendur jafn erfitt ferðalag af því að ég hef séð fólk bugast og gráta. Þá minnist ég þess að sjálf hef ég stundum verið illa áttuð í útlöndum og held að ég sé ekki ein Íslendinga um það.

Rannsaka hegðun ferðamanna

Að sjálfsögðu þarf að rannsaka hegðun ferðamanna eins og hvers annars fiskistofns í þeim tilgangi að mæta þörfum þeirra og hámarka tekjurnar af þeim – en einnig í verndunartilgangi. Við þurfum að vernda stofninn svo að hann leiti ekki á önnur mið. Ég virði og skil tilfinningar þeirra sem finnst ferðamannaiðnaðurinn vera eins og hver önnur stóriðja, sem hefur eyðilagt staði eins og Mývatnssveit.

Ferðamennska er orðin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein okkar og ferðamennska er langt frá því að vera grænn iðnaður. En ferðamennska er það sem við höfum til að lifa á um þessar mundir og við getum gert hana að góðri atvinnugrein ef við höldum vel á spöðunum. Það er í sjálfu sér einfalt reikningsdæmi að þegar íbúafjöldi lands þrefaldast þarf meira af öllu, fleiri rúm, fleiri klósett, meiri mat, tíðari samgöngur og öðru vísi afþreyingu. Það þarf rannsóknir til að finna út hvernig fjármunum skal deilt til að byggja upp innviði vaxandi atvinnugreinar. Það kostar hugvitssemi íbúa að gera gestum dvölina sem eftirminnilegasta. Við þurfum samkeppni til að halda verðum niðri og auka fjölbreytni og við þurfum samvinnu til að tryggja lágmarksþjónustu og koma í veg fyrir að ferðamönnum finnist frumbyggjar bítast um gullið.

Samræður og sameiginlegt átak

Við þurfum samræður og sameiginlegt átak til að styrkja stoðir atvinnugreinar sem getur af mörgum ástæðum verið okkur afar gefandi. Ferðamennska er skemmtileg af því að ferðamenn eru ekki grár massi heldur einstaklingar með ólíkan bakgrunn. Ferðamenn eru fólk sem koma með menningu sína og viðhorf og skilja hluta af því eftir hjá okkur. Ferðamenn hafa hugbreytandi áhrif á heimamenn, þeir víkka sjóndeildarhring okkar.

Aldrei hef ég verið jafn hrifin af landi mínu og þjóð og nú þegar ég hef fengið tækifæri til að tala svo mikið um það við gesti og gangandi. Tekjur af ferðamönnum mættu vera meira og við þurfum að vanda okkur við að búa áfangastaðinn Ísland þannig úr garði að ferðamenn skilji eftir meiri verðmæti. En ferðamennskan hlýtur að hafa hliðaráhrif. Tekjurnar skila sér ekki einungis í kassa og posa á ferðamannastöðum heldur hlýtur vaxandi áhugi á landi og þjóð að glæða sölu á íslenskum vörum og menningu erlendis. Um það er ég að hugsa þegar ég geri upp kassann í Mývatnsstofu í lok vinnudags.

Því næst fer ég í Jarðböðin, næstyndislegasta stað á jarðríki, og hlusta á fólk andvarpa af ánægju á öllum heimstungum. Þá bið ég og vona að okkur takist í sameiningu að skapa áfangastað sem ekki býður eingöngu upp á fallega náttúru heldur afbragðs þjónustu og fallega framkomu við þá sem sækja okkur heim.




Skoðun

Sjá meira


×