Innlent

Nýting á sjúkrarýmum langt yfir alþjóðlegum mælikvörðum

Svavar Hávarðsson skrifar
Rúmanýting á Landspítalanum hefur um árabil verið langt yfir alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum.
Rúmanýting á Landspítalanum hefur um árabil verið langt yfir alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum. vísir/vilhelm
Rúmanýting á Landspítalanum er komin langt yfir þau mörk sem alþjóðlega teljast ásættanleg.

Viðmiðið á Landspítalanum og öllum sambærilegum sjúkrahúsum í heiminum er um 85 prósent rúma­nýting. Samkvæmt samantekt sem unnin var fyrir Fréttablaðið hefur rúmanýtingin nú í nóvember hins vegar verið 100 prósent á spítalanum í heild og farið svo hátt sem 102 til 110 prósent á einstökum sviðum og hæst á flæði-, lyflækninga- og skurðlækningasviði.

Páll Matthíasson
Vandamálið er hvergi nærri nýtt, en árið 2012 var rúmanýtingin á öllum spítalanum 95 prósent á sama tíma árs en fór yfir 97prósent á öllum bráðadeildum spítalans á sama tíma.

Óskastaðan er að rúmanýting sé á bilinu 85 til 88 prósent, vegna þess hve sveiflur geta verið miklar á flæði bráðasjúklinga. Þessar tölur sýna því að staðan á Landspítalanum fer versnandi hvað þetta varðar, en að baki þessara talna liggja gangainnlagnir, verri þjónusta og minna öryggi – ekki síst vegna aukinnar sýkingarhættu.

Á bráðadeildum er eðlileg rúma­nýting talin vera um 85% svo að deildir hafi laus rúm fyrir innlagnir bráðasjúklinga. Þetta viðmið er um 60 prósent á gjörgæsludeildum. Rúmanýting umfram viðmið getur verið vísbending um „umfram innlagnir“ sem bendir til ófullnægjandi þjónustu, en það var niðurstaða úttektar á mönnun hjúkrunar á Landspítala frá 2007.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur sagt að 85 prósent viðmiðið sé hugsað út frá því að mögulegt sé að „bregðast við alvarlegum veikindum og slysum með fullnægjandi hætti“. Eins að þegar rúmanýtingin fer eins hátt og raun ber vitni geti það takmarkað getu spítalans til að sinna þessu mikilvæga hlutverki.

Helsta ástæðan fyrir þessari stöðu árið 2012 voru tugir sjúklinga sem voru inniliggjandi á spítalanum en voru tilbúnir að fara á hjúkrunarheimili. Sú er staðan enn og því hafa stjórnendur Landspítalans um langt árabil lagt á það þunga áherslu að þeir sem ekki lengur þurfa á þjónustu Landspítala að halda hafi möguleika á að komast aftur heim eða þangað annað sem hægt er að veita viðeigandi þjónustu.

Eðlilegt gæti talist að 15-18 einstaklingar væru í þeirri stöðu að bíða á spítalanum eftir viðeigandi úrræði utan spítalans, sagði í svari forsvarsmanna spítalans árið 2012. Þeir voru tæplega eitt hundrað um helgina sem þetta átti við um.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×