Skoðun

Nýting, nýsköpun og Timian

Halldór S. Guðmundsson skrifar
Nýsköpun, þróun og velferðartækni er vaxandi í starfsemi og stefnu Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA). Stór þáttur í þeim breytingum var net- og tölvuvæðing heimilanna sem hófst með fjárhagsstyrk Samherjasjóðsins árið 2013. Þar með opnaðist „gatnakerfi“ innan heimilanna sem síðan varð grunnur að ýmsum öðrum verkefnum á sviði nýsköpunar og þróunar til að bæta lífsgæði íbúa og aðbúnað starfsfólks.

Nýsköpun- og velferðartækni

Timian innkaupa- og matarvefur er einn þáttur nýsköpunar- og velferðartækni hjá ÖA. Verkefnið hófst á vordögum 2014 með samstarfi Öldrunarheimila Akureyrar og Timian ehf. Markmiðið var að setja upp rafrænt innkaupakerfi sem einnig þjónaði sem matar- og upplýsingavefur fyrir íbúa, aðstandendur og starfsfólk. Markmiðin voru að fá betri yfirsýn, lækka kostnað, stuðla að þróun og nýta nútímatækni sem tekur mið af framtíðarkröfum.

Fyrsta áfanga í innleiðingu á Timian kerfinu var stýrt af Karli F. Jónssyni, yfirmatreiðslumanni í eldhúsi ÖA. Skrá þurfti inn vöru sem mötuneytið kaupir og frá hverjum. Einnig að skrá inn uppskriftir og matseðla og þar með framboð í mat og matvöru innan ÖA.

Nýting og hagkvæmni

Með nýju eldhúsi hjá ÖA sem tekið var í notkun árið 2006 var fylgt stefnu um „nýtingu og fullvinnslu“ sem grunnur í vinnslu eldhússins. Lögð er áhersla á eigin vinnslu og eigin framleiðslu, ítrustu hagkvæmni í innkaupum og að fullnýta innkeypt hráefni t.d. með því að kaupa inn kjöt í heilu og úrbeina. Þessar áherslur hafa skilað því að matreiðslumenn ÖA vita hvaða hráefni þeir nota, geta upplýst um það og tryggja ferskleika og hagkvæmni í rekstri. Með innleiðingu á Timian innkaupa- og matarkerfinu hefur líka tekist að bæta aðgengi og nú eiga íbúar, aðstandendur og starfsfólk aðgang að matseðlum og næringarupplýsingum á heimasíðu ÖA.

Rafræn beiðnakerfi

Innan ÖA eru 16 býtibúr og matstofur á heimilum íbúa. Hvert býtibúr sendir eldhúsinu rafrænar beiðnir í Timian-kerfinu, um fjölda í mat og aðra vöru sem viðkomandi heimili eða býtibúr þarf til að framreiða morgun-, hádegis-, miðdags- og kvöldverði. Með Timian-kerfinu hefur starfsfólk líka fengið meiri innsýn í kostnað við rekstur heimilanna og aukin verðvitund skapað hagræði í rekstri. Uppsetningu og innleiðingu fyrsta hluta innkaupa- og matarkerfis lauk á árinu 2015 en síðan hefur verið unnið að uppsetningu á innkaupakerfi fyrir aðra vöru s.s. hjúkrunar- og hreinlætisvöru.

Matreiðslumeistarar á Norðurlandi héldu fyrsta fund ársins í Hlíð og fengu kynningu á húsakynnum, tækjakosti og áherslum eldhússins. Meðal þess sem þá kom fram var að á árinu 2015 afgreiddi eldhús ÖA á bilinu 150-180 þúsund dagskammta til íbúa, gesta, starfsfólks og heimsendan mat og að hráefniskostnaður á dagskammti væri rúmar 500 kr. (fullt fæði).

Áhugi og umræða sem skapaðist í heimsókn matreiðslumeistaranna vakti spurningar um að tilefni væri til að greina frá þessum áherslum um nýtingu og nýsköpun í eldhúsi ÖA og koma á framfæri því sem vel er gert í opinberum rekstri.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×