Innlent

Nýta frístundastyrk lítið og fá hvatningu með ókeypis íþróttaæfingum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Eva Dögg Guðmundsdóttir, stjórnandi verkefnisins Samspils, segir íþróttirnar kynntar á forsendum barnanna og unglinganna sjálfra. Það sé bara að mæta. Íþróttafatnaður er ekki nauðsynlegur.
Eva Dögg Guðmundsdóttir, stjórnandi verkefnisins Samspils, segir íþróttirnar kynntar á forsendum barnanna og unglinganna sjálfra. Það sé bara að mæta. Íþróttafatnaður er ekki nauðsynlegur. Fréttablaðið/Daníel
Það hefur verið líf og fjör á lóð Fellaskóla á þriðjudögum og fimmtudögum í sumar. Þar er boðið upp á ókeypis íþróttaæfingar fyrir börn og unglinga síðdegis á þriðjudögum og fimmtudögum og heitir verkefnið SAMSPIL.

Verkefnið, sem hófst snemma í júní og stendur út júlí, er styrkt af íþrótta- og tómstundaráði og er í samvinnu við íþróttafélögin í Breiðholti og þjónustumiðstöðina þar.

„Við hengdum upp plaköt á fjórum tungumálum í 130 stigagöngum í Fella- og Hólahverfi í Breiðholti og í nokkrum búðum í nærumhverfinu. Lög sem banna kynningu á frístundastarfi í skólum hafa ekki greitt götu þessa verkefnis. Það er svolítið leiðinlegt því að þetta er alveg ókeypis,“ segir Eva Dögg Guðmundsdóttir, stjórnandi verkefnisins.

Eva Dögg, sem er með meistaragráðu í menningar- og innflytjendafræðum frá Háskólanum í Hróarskeldu í Danmörku, segir að ákveðið hafi verið að hafa verkefnið í Breiðholti þar sem nýting frístundakortsins hafi verið miklu minni þar en í öðrum hverfum Reykjavíkurborgar. „Í hverfi 111 er nýtingin bara 61 prósent en hún er 76 til nær 90 prósent í öðrum hverfum.“

Hugsunin á bak við verkefnið er að flytja íþróttirnar út í hverfið og kynna þær á forsendum barnanna og unglinganna sjálfra, að því er Eva Dögg greinir frá.

„Það er bara að mæta og vera með á lóð Fellaskóla sem var svo vinveittur að lána okkur skólalóðina til verkefnisins. Það er ekki nauðsynlegt að mæta í íþróttafatnaði. Boðið er upp á æfingar í ýmsum íþróttagreinum. Einmitt núna er það fótbolti. Auk fótbolta eru á dagskrá handbolti, körfubolti og frjálsar íþróttir og er hver grein kynnt í fjögur skipti. Verkefnið er hugsað sem brú yfir í íþróttirnar.“

Eva Dögg getur þess jafnframt að í lok hverrar íþróttaæfingar sé boðið upp á lífsleikniæfingar.

„Þær byggjast á fjórum grunnsteinum. Um er að ræða fræðslu um fordóma, einelti og staðalímyndir auk valdeflingar. Í hverfinu koma margir saman af ólíku þjóðerni. Það er upplagt að nýta frírýmið sem frístundir eru til að hrista hópinn saman og gefa honum um leið mynd af því að við erum ekki jafn ólík og við höldum,“ segir Eva Dögg.

Á hverja æfingu hafa komið tíu til fimmtán börn og unglingar.

„Aðsóknin hefur verið góð en hún hefði mátt vera betri. Æfingarnar fyrir 3. til 5. bekk eru frá 15 til 16.15 á þriðjudögum og fimmtudögum en frá 16.15 til 18 fyrir 6. til 8. bekk. Svo erum við með Facebook-síðu þar sem lesa má um verkefnið,“ útskýrir Eva Dögg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×