Skoðun

Nýsjá-íslensk aðferð við gjaldtöku

Einar Á. E. Sæmundssen skrifar
Í stuttri blaðagrein í vor gerði ég grein fyrir aðferðafræði Nýsjálendinga og annarra erlendra þjóðgarðastofnana við gjaldtöku í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Á Nýja-Sjálandi borga þeir aðilar gjald sem selja þjónustu innan slíkra svæða en almenningur greiðir ekki fyrir aðgengi að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Hjá þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna og Kanada, Umhverfisstofnun Nýja-Sjálands og Ástralíu eru ferðaþjónustufyrirtæki starfsleyfisskyld innan þjóðgarða. Fyrirtækin lúta kröfum og reglum en samhliða eru innheimt gjöld fyrir afnot ferðaþjónustu af svæðum í opinberri eigu. Ef viðskiptatækifærin snúast um takmarkaða auðlind eru þau boðin út. Meginatriðið er að ferðaþjónustuaðilar sem nýta svæðin í viðskiptalegum tilgangi geri samninga við yfirvöld um afnot af þjóðgörðum og friðlýstum svæðum í opinberri eigu og greiða fyrir. Viðbrögð við efni greinarinnar voru almennt jákvæð.

Það mætti æra óstöðugan að bæta nýjum hugmyndum um gjaldtöku í opinbera umræðu enda af nógu af taka á síðustu mánuðum. Ég vil leyfa mér að bæta við einni hugmynd undir áhrifum frá fyrrnefndri aðferðafræði á Nýja-Sjálandi.

Ég legg til að komið verði upp samræmdri áfangastaðaskráningu fyrir land í eigu ríkis og sveitarfélaga, þjóðgarða, friðlýst svæði og aðra vinsæla áningarstaði ferðamanna í opinberri eigu. Þessir staðir verða skilgreindir sem sérstakir áfangastaðir ferðamanna með kerfi sem heldur utan um fjölda gesta á hvern stað. Þeim sem hafa ferðaskrifstofuleyfi og ferðaskipuleggjandaleyfi verði gert skylt að skila reglulega inn áfangastaðaskráningu til Ferðamálastofu. Slík skráning viðgengst nú þegar á öðrum sviðum ferðaþjónustunnar en sem dæmi eru þeir sem selja gistingu skyldugir til að senda inn tölur um gistinætur og uppruna ferðamanna til Hagstofunnar.

Samræmd gjaldskrá

Samræmd hófleg gjaldskrá verður tekin upp í mismunandi verð- og álagsflokkum eftir tegund og eðli svæða. Greitt verður beint til baka til þeirra sem fara með stjórn áfangastaða í samræmi við fjölda ferðamanna sem skráðir eru í ferðir þangað. Ferðamenn borga gjaldið í farmiða ferðarinnar hjá ferðaþjónustuaðilum. Það má hafa þann möguleika opinn að vinsælir ferðamannastaðir í einkaeigu verði með í slíku kerfi. Það getur hentað sumum landeigendum að vilja haga gjaldtöku með slíkum hætti. Eftirlit getur verið í formi tilviljanakennds úrtaks á fjölda ferðamanna og leyfum ferðaþjónustufyrirtækja á áfangastöðum. Þróa mætti stafræna lausn sem tengdist skráningu og úrvinnslu.

Á þennan hátt verður til afnotagjald í réttu hlutfalli við fjölda ferðamanna sem ferðaþjónustufyrirtæki fara með á skilgreinda áfangastaði. Það gjald rennur beint og milliliðalaust til svæðanna og nýtist til uppbyggingar, reksturs og sem afgjald fyrir afnot.

Meðal stærstu notenda þjóðgarða og friðlýstra svæða eru ferðaþjónustufyrirtækin sem selja ferðir á þá staði. Með slíku kerfi er hægt að koma gjaldinu inn í verð til ferðamanna sem greiða það en um leið verða til upplýsingar um fjölda og nýtingu ferðaþjónustunnar. Með slíkri nálgun axlar ferðaþjónustan sem atvinnugrein ábyrgð á því ástandi sem skapast þegar þúsundir ferðamanna á hennar vegum heimsækja helstu náttúruperlur landsins á sama tíma. Ef rukka á ferðamenn á eigin vegum þarf að nota aðrar aðferðir en margar hafa komið fram í umræðunni undanfarna mánuði. Stærsti hluti ferðamanna á eigin vegum er á einkabílum eða bílaleigubílum og fylla þeir bílastæði flestra vinsælla ferðamannastaða. Því væri nærtækast að taka upp stöðumælagjald við fjölförnustu ferðamannastaðina með stærri bílastæðum þar sem slík fjárfesting getur borgað sig.

Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun náttúruverndarlaga og er nauðsynlegt í þeirri vinnu að skoða vel og skilgreina réttinn til nýtingar lands í atvinnuskyni. Um leið væri hægt að koma á góðu samræmdu kerfi fyrir afnot af sameiginlegri auðlind og stolti allra landsmanna, náttúru Íslands.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×