Lífið

Nyrsti tannlæknir heims

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Sólveig Anna ásamt guttunum fyrir framan skilti sem sýnir vegalengdir til nokkurra staða, t.d til norðurpólsins, en þangað eru 1.309 kílómetrar.
Sólveig Anna ásamt guttunum fyrir framan skilti sem sýnir vegalengdir til nokkurra staða, t.d til norðurpólsins, en þangað eru 1.309 kílómetrar.
Sólveig Anna Þorvaldsdóttir, Þorvaldur, Bjarki og Kristján Breiðfjörð undir húsi sem heitir Taubanesentralen sem var notað við flutning á kol úr námunum. Longyearbyen er í bakrunn.
„Við höfum lítið séð í kring um okkur og vitum varla hvernig bærinn lítur út því hér er svartamyrkur. Við erum búin að vera hér í einn og hálfan mánuð og líst mjög vel á. Þegar við komum hingað var að detta í svartamyrkur þannig að við eigum eftir að skoða bæinn og fjöllin í kring.



Við bjuggum í Tromsö og þar er þessi mikla dimma líka en samt sést alltaf aðeins til dagsljóssins í hádeginu. Hér er enginn munur á hádegi og miðnætti, það er bara alveg svart,“ segir Sólveig Anna Þorvaldsdóttir sem flutti nýlega til Longyearbyen á Svalbarða ásamt fjölskyldu sinni.



Þar er Sólveig tannlæknir en 35 sóttu um stöðuna. Tannlæknirinn sem var áður í bænum lét af störfum sökum aldurs en hann hafði verið þar í 14 ár og þessi staða því mjög eftirsótt vegna staðsetningar. Sólveig og unnusti hennar, arkitektinn Kristján Breiðfjörð, og synirnir Þorvaldur Kári og Bjarki Rafn, höfðu það gott í Tromsö þar sem þau höfðu búið síðastliðin fjögur ár. Sólveig rakst á auglýsingu um starfið í norska tannlæknablaðinu og sótti um nánast samdægurs.



Kristján starfaði á arkitektastofu og guttarnir höfðu það gott í skólanum. Það var því töluvert stökk að flytja til Longyearbyen sem er einn nyrsti bær veraldar. „Ég er nyrsti tannlæknir heims, það er enginn tannlæknir norðar en ég,“ segir hún og hlær. „Við vorum hvorugt að leita okkur að nýrri vinnu. Við vorum bæði mjög ánægð þar sem við vorum, og líka að búa í Tromsö,“ segir hún en hún var klínískur leiðbeinandi fyrir lokaársnemendur við Tannlæknaháskólann í Tromsö.





Sólveig fór ofan í íshelli í vikunni eftir að hafa gengið upp á Larsbreen, jökul sem er sunnan við Longyearbyen.
Fjórir mánuðir af sólarleysi

Sólin fer niður fyrir sjóndeildarhringinn þann 27. október í bænum og er alveg dimmt frá 11. nóvember til 30. janúar, sem heimamenn kalla „pólarnótt“. Sólin birtist svo aftur þann 8. mars og segir Sólveig að þá komi heimamenn saman á gömlu sjúkrahúströppunum til að klappa fyrir fyrstu sólargeislunum. „Þá er víst heil vika af hátíðarhöldum og mikið um að vera hér. Bæjarbúar safnast þá saman og bíða eftir að sólargeislarnir komi. Þegar þeir birtast er klappað og allir borða sólar­bollur og þetta þykir mjög merkilegur dagur sem við bíðum spennt eftir. Svo 20. apríl fer miðnætursólin að skína og svo er bjart til 22. ágúst. Þannig að það eru fjórir mánuðir af svartnætti, fjórir mánuðir af sól og fjórir mánuðir þar sem þetta er skiptist á.“



Fjölskyldan hefur komið sér fyrir í tannlæknabústaðnum en vinnuveitendur skaffa yfirleitt húsnæðið á eyjunni. Reyndar er það svo að enginn má flytja til Svalbarða án þess að hafa vinnu. „Það er líka bannað að deyja á Svalbarða því það er ekki hægt að jarða viðkomandi. Um leið og fólk er orðið veikt er flogið burt með það. En auðvitað verða slys og fleira en veikt fólk fær víst ekki að búa hér.“ Hún bætir því við að það sé einnig bannað að fæða börn á eyjunni og þurfa konur að fara af eyjunni í kringum 37. viku.



Þá bendir hún á að þrátt fyrir þetta mikla myrkur sé bara fullfrískt fólk á eyjunni og lítið um þunglyndi. „Mér skilst að myrkrið sé ekkert svo erfitt fyrir þá sem búa hérna, en ég hef heyrt að þegar sólin kemur aftur þá verði fólk svolítið klikkað því það verður víst svo rosalega bjart. Það er víst minna um þunglyndi hérna en annars staðar þar sem er dimmt. Annaðhvort er hægt að búa hérna eða ekki og ég held að maður komist að því mjög fljótlega.



Þeir sem flytja hingað eru fólk með ævintýraþrá. Það er enginn að flytja hingað til að hanga inni. Maður er að flytja hingað til að fara upp á jökul, fara í snjósleðaferðir, fara í gönguferðir og upplifa ævintýri á hverjum degi.“





Þorvaldur Kári, sem er átta ára, eftir ísbjarnaræfingu í skólanum.
Guttinn á ísbjarnaræfingu

Longyearbyen er ekki afgirtur bær og því er auðvelt aðgengi fyrir ísbirni og síðast spókaði einn sig í bænum fyrir tveimur árum, í götunni fyrir neðan þar sem Sólveig og fjölskylda búa. „Það geta komið birnir hingað hvenær sem er. Fyrstu vikurnar höfum við kíkt út á morgnana og athugað hvort það sé ekki allt í lagi fyrir utan. Við viljum ekki sjá ísbjarnarspor í snjónum fyrir utan húsið okkar. Maður er ennþá pínu stressaður, þó við séum kannski orðin aðeins kærulausari núna. Við erum t.d. enn ekki tilbúin að leyfa Þorvaldi Kára að fara einum út að leika sér, en það þykir ekki mikið mál hjá heimamönnum.“



Þannig þurfti Þorvaldur að fara á ísbjarnaræfingu í skólanum, til að vita hvernig ætti að bregðast við ef ísbjörn myndi sjást. „Krakkarnir eru úti að leika sér í frímínútum og það er ísbjarnarvakt á nokkrum stöðum. Ef ísbjörn sést er skotið úr blysbyssu og börnin eiga þá að hlaupa inn í skóla eins hratt og þau geta.



Við megum ekki fara út fyrir bæinn nema að vera með riffil á okkur. Það er talið öruggt að vera þar sem götuljósin eru, en samt alltaf að vera með varann á. Riffillinn þarf að vera af nægilega stóru kalíberi til að maður geti varið sig fyrir ísbirninum.



Þannig að við erum að fara að kaupa riffil sem fyrst svo við komumst í göngutúra. Kristján er einmitt að skoða byssuskáp núna.“ Hún segir að allir sem sæki um ísbjarnarvarnarleyfi fái það og þegar það er komið þarf að velja byssu og æfa sig á skotsvæðinu. „Það er bannað að skjóta ísbjörn nema í algerri neyð. Hann verður að vera í minna en 35 metra færi og vera ógnandi, því þá er maður í bráðri lífshættu og þá á að skjóta því hann er bara nokkrar sekúndur að hlaupa þessa metra. Áður en byssan er notuð á að reyna allt til að hræða björninn í burtu, eða forða sér sjálfur.



Ef ísbjörn er skotinn er alltaf sett lögreglurannsókn af stað. Ef í ljós kemur að ekki var skotið í sjálfsvörn þá er það rosalega dýrt fyrir viðkomandi.“







Bjarki Rafn, sem er tveggja ára, á leikskólanum sínum í miklu stuði.
Tekur byssuna með sér hvert sem er

Sólveig segir að þau Kristján þurfi að kaupa sér tvo vélsleða en þau hafa ekki átt bíl síðan þau fluttu frá Íslandi árið 2009. Fyrst ætluðu þau að vera aðeins eitt ár í Noregi en árin eru nú orðin átta og þau eru ekkert á leiðinni heim. „Ég sé það ekki gerast að við séum að flytja heim í bráð. Þetta er mjög spennandi og við eigum eftir að upplifa svo miklu meira.



Ég er í fastri vinnu og Kristján, sem þurfti að segja upp mjög góðri vinnu á arkitektastofu, er kominn með spennandi verkefni hér svo okkur líður strax mjög vel, eins og alls staðar annars staðar sem við höfum verið.



Það eru flestir hér á bíl en nánast allir eiga vélsleða og við þurfum að kaupa tvo því maður ferðast ekkert einn. Hér er ekkert símasamband fyrir utan bæinn og ef maður fer eitthvað út fyrir og sleðinn bilar þá er enginn nálægt og ekki hægt að gera ráð fyrir að einhver sé á ferðinni. Þannig að það þarf að vera á tveimur vélsleðum eða ferðast með öðrum, og skipuleggja sig mjög vel.



Svo er það víst þannig að maður tekur byssuna með sér hvert sem er. Ég er komin í smá æfingarhóp kvenna þar sem við erum meðal annars að draga dekk til undirbúnings fyrir göngu þvert yfir Spitsbergen og það verða alltaf tvær að taka riffilinn með sér.“



Hún segir að hver dagur sé ævintýri líkastur í Longyearbyen. „Þegar maður hugsar hvar maður er þá er það eitt stórt ævintýri. Ég er að vinna á sjúkrahúsinu og við erum u.þ.b. 20 þar. Ef það gerist eitthvað stórt, eins og snjóflóð sem er mjög líklegt því það eru snjóflóð á hverju ári, þá er neyðarteymi virkjað sem ég er í. Tannlæknirinn sem var hér á undan mér varð t.d. að hnoða eftir að snjóflóðið féll í hittifyrra.“







Fjallið í miðjunni heitir Sukkertoppen og féll snjóflóð í desember 2015 á bæinn þar sem tveir létust. Þegar þetta viðtal er skrifað er verið er að rýma nokkur hús á þessu svæði vegna yfirvofandi snjóflóðahættu. Myndir/Sólveig Anna
Mikil menning í litlum bæ

Um 2.100 manns búa í bænum og segir Sólveig að mannlífið sé mjög mikið og bæjarbúar séu mjög duglegir að stytta sér stundir. Long­yearbyen sé í raun stórbær í smábæjarlíki. „Við fáum húsnæði hér í gegnum vinnuna. Allir sem flytja hingað verða að vera með vinnu og þú mátt ekki búa hérna nema vera með vinnu. Flestir fá húsnæði frá vinnuveitendum. Longyearbyen er skattfrjáls staður og það fá allir áfengiskort sem tákn um fasta búsetu og þannig er kvóti á áfengi í hverjum mánuði. Áfengi er víst frekar ódýrt en matvara er dýr sem og ferskvara. Mjólkin er á 30 norskar krónur (375 ísl. kr.) en í Tromsö var hún á 12 norskar krónur (150 ísl. kr.).



Það er meiri kúltúr hér en í mörgum stærri bæjum. Hér eru merkilega margir góðir veitingastaðir, það er vínkjallari sem á að vera voðalega flottur þó við höfum ekki enn farið, hér eru mörg hótel, stórt íþróttahús, sundhöll, líkamsrækt, blómlegt íþróttastarf fyrir bæði börn og fullorðna, kirkja, háskóli, verslanir, glæsilegt bókasafn, bíó, leikhús, barir og mjög flott kaffihús.“



Á sumrin tvöfaldast íbúafjöldinn. Skemmtiferðaskipin koma og fjölmargir ferðamenn svo öll hótel eru uppbókuð. „Það er mikill kúltúr hérna og það er alltaf eitthvað að gerast hvort sem er í myndlist, leiklist eða tónlist og bæjarbúar eru mjög duglegir að stytta sér stundir. Einnig ýmsir íþróttaviðburðir eins og skíðamaraþon, hlaupamaraþon og fjallahlaup – og er þá alltaf ísbjarnarvakt við keppnisleiðina.“



Dagurinn hefst á því að Sólveig fer með Þorvald í skólarútuna en skólinn er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá miðbænum. Kristján fer með Bjarka í leikskólann sem er skammt frá sjúkrahúsinu áður en hann heldur heim á leið til að sjá um heimilið. Þegar hann fær fasta vinnu er stutt fyrir Sólveigu að taka þann yngri með sér. Hún bendir á að tannheilsa bæjarbúa sé góð en hún er þó að vinna töluvert mikið og lengi þar sem hún er eini tannlæknirinn fyrir yfir 2.000 manns, og mun að auki veita neyðarþjónustu fyrir ferðamenn.





Inngangurinn við matvörubúðina vekur eðlilega athygli.


„Ef vísindamenn og aðrir sem eru á afskekktum stöðum vegna vinnu sinnar hér fá tannpínu þá er hugsanlegt að flogið verði með mig til þeirra ef þeir geta ekki komið til mín. Þá er farið á þyrlu sýslumannsins og yfirleitt væri meðferðin að draga tönnina úr.“



Þeim Kristjáni og börnum líður vel í Longyearbyen og þau hlakka til að eyða jólunum í kolniðamyrkri. Í vikunni fór Sólveig í fjallgöngu upp á Larsbreen, jökul sem er sunnan við Longyearbyen, þar sem hún fór ofan í íshelli. „Við vorum 13 með höfuðljós og brodda í svartamyrkri og ég fékk lánaðan ísbjarnarvarnarriffil til að taka mynd. Ætlaði að sýna bæinn í bakgrunninum, en það tókst ekki. Það var of mikið myrkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×