Viðskipti innlent

Nýrri búð fagnað í Reykhólasveit

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ása Fossdal, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri og Reynir Þór Róbertsson við opnun Hólabúðar í gær.
Ása Fossdal, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri og Reynir Þór Róbertsson við opnun Hólabúðar í gær. Mynd/Reykhólavefurinn.
Flaggað var á Reykhólum í gær þegar verslun var opnuð þar á ný. Sveitarstjórinn Ingibjörg Birna Erlingsdóttir mætti með blómvönd og færði verslunareigendunum, þeim Ásu Fossdal og Reyni Þór Róbertssyni, og óskaði þeim velfarnaðar, að því er Reykhólavefurinn greinir frá.

Þar með var þriggja mánaða verslunarleysi byggðarinnar rofið. Nýja búðin heitir Hólabúð og er í sama húsi og áður hýsti Hólakjör, sem var lokað um síðustu áramót. Var það áfall fyrir samfélagið enda langt að sækja í næstu búðir á Hólmavík, 58 kílómetra í burtu, og í Búðardal, en þangað eru 75 kílómetrar.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps greip til þess ráðs að auglýsa eftir aðila sem væri tilbúinn að taka að sér að reka matvöruverslun á Reykhólum. Þau Ása og Reynir Þór gáfu sig fram og ákváðu að flytja úr Njarðvík vestur í Reykhólasveit og gerast kaupmenn. Þau höfðu bæði reynslu af verslunarrekstri í Reykjanesbæ.  

Fyrst um sinn verður Hólabúð opin virka daga milli klukkan 10 og 18 og laugardaga milli klukkan 10 og 16 en lokað verður á sunnudögum. Á Reykhólum búa um 130 manns og í Reykhólahreppi alls um 270 manns.


Tengdar fréttir

Sveitarstjórn auglýsir eftir kaupmanni

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að auglýsa eftir aðila sem er tilbúinn að taka að sér að reka matvöruverslun á Reykhólum.

Íbúar Reykhóla vakna á nýju ári við enga verslun

Einu matvöruversluninni á Reykhólum, Hólakaupum, var lokað á gamlársdag. Eigendurnir, þau Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir, ákváðu að hætta rekstrinum vegna mikillar bindingar og vinnuálags fyrir fjölskylduna.

Kaupfélagsandi endurvakinn á Reykhólum

Ætluðu til Noregs í veitingarekstur, enduðu á atvinnuleysisbótum suður með sjó og eru nú komin á sunnanverða vestfirði þar sem þau bregða sér í hlutverk kaupmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×