Innlent

Nýráðinn sveitarstjóri ekki úr hópi umsækjenda

Bjarki Ármannsson skrifar
Karl Frímannsson er nýráðinn sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit.
Karl Frímannsson er nýráðinn sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit. Vísir/Pjetur
Karl Frímannsson, nýráðinn sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, var ekki meðal þeirra 49 sem sóttu um starfið. Minnihluti í sveitarstjórn er ósáttur með að hafa ekki verið með í ráðum þegar meirihluti ákvað að bjóða Karli stöðuna.

Betra að vinna saman að ráðningu

„Við erum ósátt með að fá ekki að vera með í að taka viðtal við þá sem sóttu um, að vera með í því ferli,“ segir Kristín Kolbeinsdóttir, fulltrúi H-listans í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar. „Heldur er okkur bara tilkynnt að það verði ekki ráðið úr þeim sem sóttu um.“

Kristín tekur það fram að meirihluta sé heimilt að standa svona að ráðningunni en að minnihluti hefði viljað vera með í ráðum.

„Sveitarstjórn er alltaf sterkari þegar það er samstaða og unnið saman að ráðningu sveitarstjóra,“ segir Kristín. „Þetta snýst á engan hátt um persónu þess sveitarstjóra sem var ráðinn.“

Skilur að þetta veki upp spurningar

„Við fengum Capacent til að auglýsa og ætluðum að fara með ráðninguna í gegn hjá þeim,“ segir Jón Stefánsson, oddviti F-listans sem er með hreinan meirihluta í sveitarstjórn. „Þau skila svo til okkar lista með sex nöfnum sem þau vildu þá taka í viðtal og frekari úrvinnslu. Þá tókum við í raun yfir ráðninguna og þetta varð niðurstaðan.“

Jón segist hafa fullan skilning á því að leiðin sem meirihlutinn fór veki upp spurningar en að hún sé aftur á móti að öllu leyti lögleg.

„Ráðning sveitarstjóra er í eðli sínu pólitísk,“ segir hann. „Það er nú ekki þannig að manni hafi ekkert litist á umsækjendurna heldur var bara enginn einn sem var alveg sjálfkjörinn. Menn fóru bara að hugsa þetta vítt.“

Jón segir reynslu af fyrri störfum Karls, sem var skólastjóri Hrafnagilsskóla við góðan orðstír í þrettán ár, hafa ráðið miklu um ákvörðunina.

„Hann sótti ekki um á sínum tíma, því miður. Það hefði allt saman verið einfaldara ef hann hefði sótt um, þá er ég ekki í nokkrum vafa að hann hafði verið ráðinn með atkvæðum allra.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×