Innlent

Nýr utanríkisráðherra sér tækifæri í útgöngu Breta úr ESB

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson gæti átt stefnumót við sal Öryggisráðs SÞ í framtíðinin
Guðlaugur Þór Þórðarson gæti átt stefnumót við sal Öryggisráðs SÞ í framtíðinin Vísir/Ernir/Getty
Guðlaugur Þór Þórðarson mun taka við embætti utanríkisráðherra í dag þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tekur við völdum. Nýr utanríkisráðherra leggur áherslu á fríverslun og sér tækifæri í væntanlegri útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

„Ég er spenntur að takast á við þetta verkefni. Ég er þakklátur fyrir það verkefni sem formaðurinn og þingflokkurinn hefur sýnt mér,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Vísi.

Hann segir að eitt af stóru málunum verði að gæta hagsmuna Íslands í tengslum við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en ekki liggur fyrir með hvaða hætti það verður gert. Guðlaugur Þór segir þó að þar geti leynst ákveðin tækifæri fyrir Ísland.

„Bretland er eitt stærsta viðskiptaland okkkar innan ESB og þar af leiðandi eitt af okkar allra stærstu viðskiptalöndum. Forsætisráðherra Bretlands hefur gefið það skýrt út að hún vilji að Bretar verði leiðtogar í fríverslun í heimiunum. Það að fimmta stærsta efnahagskerfi heimsins sé að fara í þá áttina að fullum krafti getur skapað tækifæri sem er mikilvægt fyrir okkur og EFTA-ríkin að nýta sér,“ segir Guðlaugur Þór.

Í tengslum við þetta segir Guðlaugur Þór að sem utanríkisráðherrra vilji hann leggja áherslu á fríverslun.

„Fríverslun er eitthvað sem við byggjum afkomu okkar á og við værum á slæmum stað ef við hefðum ekki aðgang að erlendum mörkuðum,“ segir Guðlaugur Þór sem tekur við embætti á sama tíma og blikur eru á lofti í alþjóðamálum.

Bretar stefna að því að yfirgefa Evrópusambandið.Vísir/EPA
Hætturnar ekki horfnar úr heiminum

Aukin spenna hefur færst í samskipti Bandaríkjanna og Rússa og væntanleg útganga Bretlands úr Evrópusambandinu skapar óvissu sem ekki hefur verið fyrir hendi frá lokum kalda stríðsins.

„Við verðum að vera meðvituð hvað varðar ógnir í öryggis- og varnarmálum. Þrátt fyrir að kalda stríðið sé sem betur búið hverfa ekki hætturnar úr heiminum,“ segir Guðlaugur Þór.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðlaugur Þór gegnir embætti ráðherra en hann var heilbrigðisráðherra á árunum 2007-2009. Hann segir að sú reynsla muni nýtast honum vel í nýju embætti.

„Það er enginn vafi á því að sú reynsla mun nýtast mér í þessu. Það er margt sem kemur manni á óvart þegar maður stígur sín fyrstu skref sem ráðherra og það er gott að vera kominn með það í reynslubankann að hafa verið ráðherra áður.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×