Innlent

Nýr samningur fer beina leið í kynningu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Úr verkfallsmiðstöð. Framhaldsskólakennarar fóru í verkfall í fyrravor, en lönduðu samningi í apríl.
Úr verkfallsmiðstöð. Framhaldsskólakennarar fóru í verkfall í fyrravor, en lönduðu samningi í apríl. Fréttablaðið/GVA
Framhaldsskólakennarar skrifa nú í morgunsárið undir nýjan kjarasamning við ríkið hjá Ríkissáttasemjara.

Til stóð að skrifa undir síðdegis í gær, en Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að því hafi verið frestað til þess að ganga frá öllum smáatriðum.

„En það er búið að ganga frá þessu og við stefnum að undirskrift, svona með eðlilegum fyrirvörum. Það er ekki búið að skrifa undir fyrr en skrifað hefur verið undir.“

Guðríður Arnardóttir
Samningar framhaldsskólakennara urðu lausir í febrúar þegar hafnað var, í atkvæðagreiðslu, nýju vinnumati sem var forsenda þess að umsamdar launahækkanir því tengdu gengju eftir. Guðríður segir of snemmt að tjá sig um innihald nýja samningsins.

„En um leið og búið er að skrifa undir sendi ég félagsmönnum þau gögn. Kennarar fá sent rafrænt kynningarefni fyrir páska og svo höldum við eftir páskahelgina tvo kynningarfundi. Síðan verður farið í atkvæðagreiðslu eins fljótt og kostur er. Við viljum hafa hraðar hendur,“ segir Guðríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×