Enski boltinn

Nýr framherji City er reglulega skammaður af mömmu sinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gabriel Jesus fær að heyra það frá móður sinni.
Gabriel Jesus fær að heyra það frá móður sinni. vísir/getty
Brasilíski framherjinn Gabriel Jesus er einn efnilegasti framherji heims í dag en það er ein ástæða þess að Pep Guardiola fékk yfirmenn sína til að kaupa strákinn unga frá Palmeiras til Manchester City í sumar.

Jesus, sem vann gull með Brasilíu á Ólympíuleikunum í sumar, var keyptur á 27 milljónir punda en hann gengur í raðir City-liðsins í janúar. Hann var kjörinn besti ungi leikmaður brasilísku deildarinnar í fyrra og skoraði bæði í fyrsta leik sínum fyrir Palmeiras sem og brasilíska landsliðið.

Það sem heillar þjálfara og sparkspekinga við Jesus er vilji hans til að hlaupa til baka og verjast en það er eiginleiki sem allir þjálfarar elska. Það er líka eins gott fyir hann að sinna varnarvinnunni því móðir hans gefur honum engan afslátt og hundskammar pilt ef hann verst ekki eins og maður.

„Það er satt að móðir mín skammar mig þegar ég hleyp ekki til baka,“ segir Jesus í viðtali við The Guardian. „Við erum gríðarlega náin og hún krefst mikils af mér sem er frábært. Hún hrósar mér bara þegar ég á það skilið. Ég er virkilega heppinn að eiga mömmu eins og hana. Hún segir mér alltaf sannleikann sem hjálpar mér mikið.“

Jesus þykir mjög þroskaður miðað við aldur en ein ástæða þess að framherjinn og móðir hans eru svo náin er að hann missti föður sinn sem barn. Móðir hans ól upp Jesus og bræður hans þrjá einsömul.

„Fótboltamenn þroskast fyrr en aðrir. Ég óx mjög hratt úr grasi vegna alls þess sem var í gangi heima hjá mér þegar ég var ungur,“ segir Gabriel Jesus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×