Erlent

Nýr forseti Evrópuþingsins kjörinn á morgun

atli ísleifsson skrifar
Gianni Pittella, Guy Verhofstadt and Antonio Tajani.
Gianni Pittella, Guy Verhofstadt and Antonio Tajani. Vísir/AFP
Þingmenn Evrópuþingsins munu kjósa sér nýjan forseta á morgun og bendir flest til að Ítali verði fyrir valinu.

Ítalski Evrópuþingmaðurinn Antonio Tajani er frambjóðandi Kristilegra demókrata (EPP) á þinginu en þinghópurinn er sá stærsti á þinginu. Hinn 63 ára Tajani er einn af varaforsetum þingins og átti áður sæti í framkvæmdastjórn ESB þar sem hann fór með málefni samgangna og iðnaðar.

Martin Schultz hefur gegnt embætti forseta Evrópuþingsins frá árinu 2012, en tilkynnti fyrr í vetur að hann hugðist láta af embætti og snúa aftur í þýsku landsmálin þar sem þingkosningar fara þar fram í haust.

Bendir flest til að Schultz verði gerður að utanríkisráðherra Þýskalands í næsta mánuði þegar Frank-Walter Steinmeier verður að öllum líkindum skipaður forseti landsins.

Martin Schultz.Vísir/AFP
Tajani er þó ekki óumdeildur þar sem hann hefur ÁÐUR starfað náið með fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Belusconi.

Jafnaðarmenn á Evrópuþinginu tefla fram samlanda Tajani, Gianni Pittella, sem hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá 1999.

Frjálslyndir demókratar hafa tilnefnt Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, og Íhaldsmenn á Evrópuþinginu (ECR), sem eru efasemdarmenn þegar kemur að Evrópusamrunanum, hina belgísku Helgu Stevens.

Þingmenn þinghóps EPP eru 214 talsins, þingmenn þinghóps Jafnaðarmanna 189, Frjálslyndra demókrata 69, Íhaldsmanna 74 og annarra hópa samtals 205.

Kosning nýs forseta hefst klukkan átta í fyrramálið að íslenskum tíma, en búist er við að útslit liggi fyrir um kvöldið. Hafi enginn frambjóðandi náð hreinum meirihluta í fyrstu þremur umferðum kosninganna er kosið milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði í þriðju umferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×