Innlent

Nýr Evrópuflokkur tæki mest fylgi frá Sjálfstæðisflokknum

Heimir Már Pétursson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn og þeir flokkar á Alþingi sem styðja áframhald viðræðna við Evrópusambandið gætu tapað mestu fylgi ef stofnaður yrði nýr Evrópusinnaður flokkur á hægri væng stjórnmálanna. Slíkur flokkur mælist nú með 21,5 prósenta fylgi.

Þetta er önnur könnunin í röð þar sem Evrópusinnaður flokkur til hægri í stjórnmálum mælist með um 20 prósenta fylgi. Hann tæki mest frá Sjálfstæðisflokknum en einnig öðrum flokkum.

Samkvæmt könnun Capacents fengi flokkur sem þessi 21,5 prósent atkvæða en 26,5 prósent þeirra sem sögðu líklegt eða öruggt að þau kysu slíkan flokk kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast, 20 prósent Samfylkinguna, 16 prósent Framsóknarflokkinn og 15 prósent Bjarta framtíð. Mjög fáir höfðu kosið Vinstri græn eða Pírata.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði segir þetta ekki endilega koma á óvart. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki náð að marka sig í stjórnarsamstarfinu með Framsóknarflokknum.

Eru þetta þá að þínu mati allt óánægðir Evrópumenn innan Sjálfstæðisflokksins?

„Það er erfitt að segja það. Sjálfsagt er kjarninn í þessu óánægðir Evrópumenn. En þetta kann líka að vera almenn óánægja. Þessi óstofnaði flokkur hefur gefið sig út fyrir það að vera flokkur vestrænnar samvinnu og viðskiptafrelsis. Og það kann að vera að þessi stuðningur við flokkinn komi úr báðum áttum,“ segir Gunnar Helgi.

Enda virðist þessi flokkur höfða til Evrópusinna sem eftir séu í Sjálfstæðisflokknum en einnig til margra sem áður kusu Samfylkingu, Bjarta framtíð og Framsókn.

„Í raun og veru má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu en Samfylkingin og Björt framtíð ekki síður,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×