Viðskipti innlent

Nýnemum Verzló gæti fækkað um helming

Haraldur Guðmundsson skrifar
Ríkið greiðir nú með 1.430 nemendum skólans á ári.
Ríkið greiðir nú með 1.430 nemendum skólans á ári. Visir/Vilhelm
Verzlunarskóli Íslands gæti þurft að fækka nýnemum um helming næsta haust og segja upp starfsfólki ef fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár verður samþykkt.

„Í frumvarpinu er verið að skerða fjölda þeirra nemenda sem ríkið er tilbúið að borga með á hverju ári og þetta hefur þessi áhrif á okkur,“ segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskólans.

Skólinn tekur inn yfir 300 nýnema á ári en að sögn Inga stefnir í að þeir verði einungis um 150 þegar skólaárið 2015/2016 hefst. Fari svo gæti Verzlunarskólinn þurft að fækka stöðugildum um níu.

„Það er þó ekki öruggt og það þýðir ekki endilega að níu kennarar missi starfið því hér vinna margir í meira en einu stöðugildi. Einnig gæti svo farið að kennarar sem hafa verið hér í eitt eða tvö ár fái ekki fastráðningu. Þetta gæti þó líka endað með því að við tökum inn fleiri nemendur á kostnað skólans sem hefði þá einhver áhrif.“

Ingi segir skólann fá um 500 umsóknir frá nýútskrifuðum grunnskólanemum á ári sem velji hann sem fyrsta val. Að auki er skólinn annað val hjá yfir 200 umsækjendum.

„Hluti af þessari fækkun ársnema til Verzlunarskólans kom til síðastliðið sumar en við fengum þær upplýsingar svo seint að við gátum ekki brugðist við og sagt nei við nemendur sem höfðu fengið inni. Síðan kemur ennþá meiri niðurskurður núna og við getum ekkert brugðist við þessu fyrr en um mitt almanaksárið og því kemur allur skellurinn næsta haust,“ segir Ingi.

Félag framhaldsskólakennara hefur gagnrýnt áform ríkisins um fjárveitingar til framhaldsskólanna og sagt þær takmarka aðgengi 25 ára og eldri að námi á framhaldsskólastigi. Ingi segir þessa breytingu ekki hafa mikil áhrif á stöðu skólans.

„Það er einhver hópur nemenda sem er í fjarnámi úr þessum aldurshópi en hann er ekki stór. Ef þetta fer svona, sem er ekkert öruggt því ég er ekki búinn að gefa upp alla von, þá stefnir í þessa fækkun nýnema með tilheyrandi áhrifum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×