Innlent

Nýnemar MR greiða stórfé fyrir skólabækur

Snærós Sindradóttir skrifar
Námsbækur nýnema við Menntaskólann í Reykjavík eru meira en tvöfalt dýrari en fyrir nýnema við lagadeild Háskóla Íslands. Rektor segir ástæðuna vera að svona raðist kaupin, þau verði ódýrari eftir því sem líður á námið.
Námsbækur nýnema við Menntaskólann í Reykjavík eru meira en tvöfalt dýrari en fyrir nýnema við lagadeild Háskóla Íslands. Rektor segir ástæðuna vera að svona raðist kaupin, þau verði ódýrari eftir því sem líður á námið. Vísir/GVA
Foreldrar nýnema við Menntaskólann í Reykjavík hafa þurft að borga frá níutíu til rúmlega hundrað þúsund króna fyrir námsbækurnar sem nemendum er skylt að eiga fyrir námið í vetur. Foreldrar nemanda á náttúrufræðibraut hafa borgað rúmar 107 þúsund krónur fyrir námsgögn, að pennum og stílabók meðtöldum. Leitast var við að kaupa sem mest á skiptibókamarkaði.

Til samanburðar má nefna að móðir nýnema í Menntaskólanum við Hamrahlíð greiddi rúmar fimmtán þúsund krónur fyrir skólabækur. Nýnemum við lagadeild Háskóla Íslands býðst bókapakki með ónotuðum bókum sem kostar rúmar 45 þúsund krónur.

Karen María Jónsdóttir
Karen Maríu Jónsdóttur, móður nýnema í MR, sem er á málabraut, blöskraði verðið sem hún segist ekki hafa gert ráð fyrir að yrði svona hátt. „Þetta voru tæpar 90 þúsund krónur þrátt fyrir að meirihluti bókanna væri keyptur á skiptibókamarkaði og hún hafi fengið gamlar bækur lánaðar. Við reyndum að vera mjög útsjónarsöm og notum bækur sem rétt hanga saman.“ Hún segist alltaf hafa gert ráð fyrir einhverjum bókakostnaði.

En þetta gekk svolítið fram af manni. Þetta er ekki beint það sem maður hugsar um varðandi jafnræði til náms. Ég tel það ekki bæta gæði námsins að bókakosturinn sé með þessum verðmiða. Ég myndi halda að það bitnaði á möguleikum fólks til að velja sér nám við hæfi eða eftir áhuga. Það er ekki það sem við viljum í okkar þjóðfélagi, myndi ég ætla.“

Yngvi Pétursson
Yngvi Pétursson, rektor MR, segir að hugmyndin sé að bækurnar endist nemendum lengur en bara fyrsta árið. Kostnaðurinn verði því væntanlega minni síðar á námsárunum. „Síðan erum við með bækur sem hafa ekki verið kenndar áður á fyrsta ári, og eru þá notaðar öll árin. Við erum með erlendar bækur í efnafræði og líffræði sem eru notaðar öll árin.“

Erlendu bækurnar sem Yngvi vísar til eru Inquiry into Life og Essentials of Chemistry. Í síðustu viku kostuðu þessar tvær bækur samtals rúmar 25 þúsund krónur í Bóksölu stúdenta.

Aðspurður hvort þessi hái bókakostnaður minnki ekki möguleika barna frá efnaminni fjölskyldum að sækja nám í MR segist Yngvi vona að svo sé ekki. „En ef um eitthvað slíkt er að ræða þá geta þau snúið sér til okkar. Við erum með sjóð sem er hugsaður til að styrkja nemendur sem eru með þannig fjárráð.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×