Handbolti

Nýliðar Íslands komu besta leikmanni Spánar á óvart

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Juan Canellas með einn nýliða íslenska liðsins, Janus Daða Smárason, í fanginu.
Juan Canellas með einn nýliða íslenska liðsins, Janus Daða Smárason, í fanginu. vísir/getty
Juan Canellas, stórskytta spænska landsliðsins í handbolta, var strákunum okkar erfið í gær en hann skoraði fjögur mörk í sjö skotum, gaf sex stoðsendingar og átti tvær löglegar stöðvanir í vörninni.

Íslenska liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12-10, en það spænska var mun betra í seinni hálfleik sem það vann með átta marka mun og leikinn með sex marka mun, 27-21.

„Félagi minn í markinu [Gonzalo Perez de Vargas] varði mikið af skotum. Hann stóð sig vel,“ sagði Canellas í viðtali við fréttamann IHF eftir leikinn.

„Það er alltaf erfitt að spila fyrsta leik á svona stórmóti, sérstaklega þegar mótherjinn spilar svona vel og markvörður hins liðsins er í öðrum eins ham,“ sagði Canellas um Björgvin Pál sem var með 57 prósent hlutfallsmarkvörslu í fyrri hálfleik.

„Við vorum miklu betri í seinni hálfleik þar sem vörnin datt í gang og þá fengum við auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Þegar vörnin smellur kemur sóknin með. Allt virkar auðveldara þegar vörnin er í góðu lagi,“ sagði Canellas.

Ísland var án Arons Pálmarssonar sem er meiddur og verður ekkert með á mótinu. Canellas sá smá breytingu á spilamennsku íslenska liðsins vegna þess.

„Pálmarsson er líklega besti leikmaður liðsins og aðalmaðurinn sem býr allt til. Hinir leikmennirnir eru samt góðir og þurftu að spila betur fyrst Aron var ekki með. Þeir voru pressulausir og þurftu skjóta meira á markið,“ sagði Canellas sem minntist svo á unga nýliða íslenska liðsins: „Nýju leikmennirnir eru góðir og komu okkur svolítið á óvart,“ sagði Joan Canellas.


Tengdar fréttir

Nautabanarnir of sterkir í gær

Stórbrotin frammistaða strákanna okkar í fyrri hálfleik gegn Spáni í gær dugði því miður ekki til sigurs. Spænsku nautabanarnir voru einfaldlega of sterkir. Frammistaðan og viðhorf leikmanna lofar þó góðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×