Innlent

Nýjustu milljónamæringar Íslands misstu sig í gleðinni: „Pabbi vann, pabbi vann“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tæplega 50 milljónir. Ekki amaleg búbót það.
Tæplega 50 milljónir. Ekki amaleg búbót það. Vísir
Hjón á sextugsaldri urðu 48 milljónum og sex hundruð þúsund krónum betur ríkari um liðna helgi þegar þau unnu fyrsta vinning í lottóinu um helgina. Þau vitjuðu vinningsins í húsakynnum Íslenskrar getspár í morgun og framvísuðu vinningsmiðanum. 

Í tilkynningu frá Getspá kemur fram að hjónin segjast vera dyggir lottóspilarar og kaupa miðana sína alltaf í Fjarðarkaupum. 

„Það var því mikil spenna þegar þau voru búin að lesa fréttina um að vinningsmiðinn hefði verið seldur þar. Frúin fór fyrst yfir sinn miða en þar var enginn vinningur.“

Maðurinn fór síðan yfir sinn miða og hann var víst ekki lengi að koma auga á réttu tölurnar á miðanum.

„Hjónin misstu sig úr gleði með tilheyrandi hávaða og látum og kom sonurinn hlaupandi til að athuga hvað hefði gerst og það eina sem mamma hans gat sagt í geðshræringu sinni var: „pabbi vann, pabbi vann“.“

Gleði þeirra varð enn meiri þegar þau uppgötvuðu að upphæðin er skattfrjáls og ætla þau að nýta fjármálaráðgjöf sem þeim stendur til boða.   

„Þegar þau voru spurð að því hvað þau ætli að gera við peningana sögðust þau hugsanlega fara í gott og langt sumarfrí, annað væri ekki ákveðið enda varla komin niður á jörðina ennþá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×