Erlent

Nýjasti liðsmaður Trump kemur úr glímuheiminum

Atli Ísleifsson skrifar
Linda McMahon er fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölbragðaglímusamtakanna World Wrestling Entertainment.
Linda McMahon er fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölbragðaglímusamtakanna World Wrestling Entertainment. Vísir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur fengið Linda McMahon til að stýra ríkisstofnun sem fer með málefni smærri fyrirtækja (Small Business Administration). Frá þessu var greint í gær.

Í frétt CNN segir að McMahon sé fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölbragðaglímusamtakanna World Wrestling Entertainment (WWE).

„Linda er með stórkostlegan bakgrunn og er af mörgum talin vera fremsti kvenkynsstjórnandinn sem ráðleggur fyrirtækjum víðs vegar um heim,“ sagði Trump í yfirlýsingu.

Sagði Trump að McMahon hafi átt þátt í því að gera WWE að því sem það er í dag, með um 800 starfsmenn á skrifstofum um allan heim.

McMahon stofnaði WWE ásamt eiginmanni sínum Vince McMahon árið 1979. Hún lét af störfum árið 2009 og bauð sig fram til að gegna embætti öldungadeildarþingmanns Connecticut fyrir Repúblikana árið 2010 og 2012, en laut í bæði skiptin í lægra haldi fyrir frambjóðanda Demókrata.

Hún lagði sex milljónir Bandaríkjadala til forsetaframboðs Donald Trump í haust.


Tengdar fréttir

Trump fundaði með Gore um loftslagsmál

Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjannai, fundaði í dag með Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna og dóttur hans Ivönku Trump, um aðgerðir í loftslagsmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×