Innlent

Nýjar vélar myndu gjörbreyta sýn lögreglu í miðbænum

Ásgeir Erlendsson skrifar
Nýjar og ljósnæmari eftirlitsmyndavélar myndu gjörbreyta sýn lögreglu í miðbænum. Þetta segir sérfræðingur í eftirlitsmyndavélakerfum sem bendir á að kostnaður við slíkar vélar sé óverulegur.

Ómar Halldórsson, sérfræðingur í eftirlitsmyndavélum hjá Öryggismiðstöðinni, segir að mesti munurinn liggi í ljósnæmi vélanna sem leiðir af sér að virkni þeirra er mun betri í myrki.

„Við erum að sjá miklu meiri gæði í myndavélunum núna en fyrir tveimur árum síðar. Vél í dag er orðin tífalt ljósnæmari heldur en fyrir þremur til fjórum árum síðan,“Segir Ómar.

Ómar bendir á að víða um heim séu notaðar sérstakar myndavélar sem eru sér hannaðar til að greina númeraplötur í myrkri.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að lögreglan þyrfti helmingi fleiri vélar í miðbænum því of margir staðir væru ekki í mynd. Ómar segir kostnaðinn við myndavélarnar sjálfar vera óverulegan og tekur sem dæmi að ef öllum vélum lögreglu yrði skipt út fyrir nýjar af fullkomnustu gerð og 10 bætt við að auki væri kostnaðurinn við 30 nýjar myndavélar um fjórar og hálf milljón króna. Með uppsetningu og öðrum aukabúnaði ætti kostnaður við slíkt verkefni í mesta lagi að kosta 20 milljónir króna að mati Ómars.

„Þá gjörbreytist sýn lögreglu á miðbæinn,“ Segir Ómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×