Handbolti

Nýjar þjóðhetjur í Færeyjum | Handboltastrákarnir þeirra á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Samsett
Færeyingar verða mögulegir mótherjar Íslands á HM í Alsír í júlí í sumar. Íslenska 21 árs landsliðið tryggði sig áfram en það gerðu frændur okkar í Færeyjum líka.

21 árs landslið Færeyinga tryggði sig inn á HM í dag og skrifaði þar með nýja færeyska handboltasögu. Þetta er fyrsta handboltalandslið Færeyja sem kemst inn á HM.

Færeyingar héldu riðilinn og Höllin á Hálsi var troðfull í dag þegar færeyska landsliðið spilaði upp á það að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót.

Færeyingar tryggðu sér HM-sætið með því að vinna Finna, 29-28 í lokaleiknum sínum en liðið vann alla þrjá leiki sína í riðlinum. Færeyingar höfðu áður unnið fjögurra marka sigur á Sviss, 28-24, og sex marka sigur á Ísrael, 31-25.

Hetja liðsins var sautján ára gamall markvörður, Hörður Trygvason, en hann átti stórleik í færeyska markinu. Helgi Hoydal Hildarson var markahæstur með 8 mörk.  

Færeyska sjónvarpið sýndi beint frá leiknum og netinu og fyrir áhugasama þá má sjá útsendinguna hér.

Það er gaman að sjá alla tryllast í leikslok og það fer ekkert á milli mála hversu stórt þetta var fyrir frændur okkar Færeyinga.


Tengdar fréttir

Annar sjö marka sigur hjá strákunum

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri er með fullt hús í sínum riðli í undankeppni HM eftir sigur á Grikkjum í dag, 24-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×