Erlent

Nýjar og hertar viðskiptaþvinganir gegn Rússum

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir íbúar Shakhtarsk í austurhluta Úkraínu flúðu undan bardögum þar í dag.
Fjölmargir íbúar Shakhtarsk í austurhluta Úkraínu flúðu undan bardögum þar í dag. Vísir/AP
Bandaríkin og Evrópusambandið munu beita frekari viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi í vikunni. Þetta var tilkynnt í Hvíta húsinu í dag, en þvinganirnar munu beinast gegn grundvallarþáttum efnhags Rússlands.

Vestræn ríki hafa unnið að þessum þvingunum síðan malasíska farþegaflugvélin var skotin niður yfir Úkraínu. Eftir tilkynninguna í dag, ræddu leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands, Frakklands og Ítalíu þvinganirnar á símafundi.

AP fréttaveitan segir líklegt að þvinganirnar muni snúa að vopnaframleiðslu, orkuframleiðslu og fjármálastofnunum Rússlands. Þá er Evrópusambandið að skipuleggja þvinganir og refsingar gegn einstaklingum sem eru nánir Vladimir Pútín, forseta Rússlands.

Talsmaður Hvíta hússins segir þetta gert vegna þess að Rússar hafi ekki dregið úr aðgerðum í austurhluta Úkraínu og stuðningi við aðskilnaðarsinna.

Embættismenn í Bandaríkjunum segja Rússa hafa dregist frekar inni í átökin á svæðinu og hafi flutt þungavopn inn í Úkraínu síðustu daga.

Tony Blinken aðstoðar þjóðaröryggisráðgjafi, sagði að Rússar hefðu fjölgað hermönnum og búnaði við landamærin. Það gæti mögulega verið undirbúningur fyrir inngrip hersins í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×