Innlent

Nýjar andategundir verpa við Tjörnina í Reykjavík

Atli Ísleifsson skrifar
Við Reykjavíkurtjörn.
Við Reykjavíkurtjörn. Vísir/GVA
Tvær nýjar andategundir hafa í fyrsta sinn verpt við Tjörnina í Reykjavík frá því að athuganir hófust, en andavarp stendur nú yfir við tjörnina.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að andavarp virðist ætla að vera með betra móti í ár eftir niðursveiflu síðustu ára.

Rauðhöfðaandarkolla.Mynd/Reykjavíkurborg/Björn Ingvarsson
Þar segir að rauðhöfðaönd hafi sést með unga í Friðlandinu í Vatnsmýri og á stóru Tjörninni hafi sést tíguleg toppandarkolla með þrjá litla unga. „Ekki er vitað til þess að þessar tegundir hafa verpt áður á þessum slóðum. Urtönd verpti í fyrsta sinn í Vatnsmýrinni sumarið 2014 og hefur gert það árlega síðan þá. Gargönd hefur einnig verpt reglulega síðustu þrjú ár í Vatnsmýri eftir óreglulegt varp.“



Reglulegir varpfuglar


Stokkönd, skúfönd og duggönd eru reglulegir varpfuglar við Reykjavíkurtjörn og virðist varp þeirra vera hægt og bítandi að rétta úr kútnum eftir mögur ár undanfarið. Engar æðarkollur verptu við Reykjavíkurtjörn í ár og segir að mögulegt sé að aðstæður fyrir varp æðarfugla við Reykjavíkurtjörn séu ekki lengur fýsilegar.

Toppandarkolla.Mynd/Reykjavíkurborg/Björn Ingvarsson
„Tjörnin er ekki lengur hálfsölt og þar sem æðarfuglar forðast almennt að verpa við ferskt vatn má álykta að erfitt mun reynast fyrir þá að verpa í miklum mæli. Mikill þróttur er í kríuvarpinu fjórða árið í röð og má nú fylgjast með fyrstu kríuungunum taka sig á flug í Friðlandinu í Vatnsmýri. Í Friðlandinu hafa auk kríu og áðurnefndra andategunda einnig sést verpa grágæs, hettumáfur, tjaldur, sandlóa, hrossagaukur og stelkur auk þess sem spörfuglar eins og skógarþröstur, þúfutittlingur, stari og maríuerla verpa í og við Friðlandið,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×