Körfubolti

Nýja nafnið á Röstinni ekki að hafa góð áhrif

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gengur lítið hjá Jóni Axel Guðmundssyni og félögum í Mustad höllinni.
Það gengur lítið hjá Jóni Axel Guðmundssyni og félögum í Mustad höllinni. Vísir/Andri Marinó

Grindvíkingar töpuðu í gær með tuttugu stigum á heimavelli á móti Íslandsmeisturum KR í 8. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta en KR-liðið vann alla fjóra leikhlutana í þessum leik.

Röstin í Grindavík var skírð Mustad höllin fyrir tímabilið en þessi nafnabreyting er ekki að fara alltof vel í Grindavíkurliðið ef marka má úrslitin í heimaleikjum liðanna á leiktíðinni.

Þetta var þriðji tapleikur Grindvíkinga í röð á heimavelli. Grindavík vann fyrsta heimaleik sinn á móti botnliði Hattar en hefur síðan tapað með einu stigi á móti Snæfelli (98-99), með sjö stigum á móti Keflavík (94-101) og svo með tuttugu stigum á móti KR (73-93).

Þetta er í fyrsta sinn í tæp níu ár sem Grindvíkingar tapa þremur heimaleikjum í röð í úrvalsdeildinni en síðast gerðist það frá 4. desember 2006 til 5. janúar 2007. Grindavík hefur tapað tveimur heimaleikjum í röð síðan þá en aldrei þremur í röð.

Heimavöllurinn hefur jafnan verið mjög sterkur hjá Grindavíkurliðinu en í vetur hafa þeir unnið þrjá af fjórum deildarsigrum sínum á útivelli.

Grindvíkingar hafa ekki aðeins tapað þremur heimaleikjum í röð heldur hefur liðið tapað átta af síðustu ellefu leikhlutum sínum í Mustad höllinni.



Sigurhlutfall Grindavíkur á heimavelli undanfarin ár:

2015-16: 25 prósent (1-3)

2014-15: 64 prósent (7-4)

2013-14: 82 prósent (9-2)

2012-13: 91 prósent (10-1)

2011-12: 82 prósent (9-2)

2010-11: 82 prósent (9-2)

2009-10: 73 prósent (8-3)

2008-09: 100 prósent (11-0)

2007-08: 73 prósent (8-3)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×