Skoðun

Nýja löggjöf í kynferðis­brotamálum, strax!

Dagný Ósk Aradóttir skrifar
2015. Byltingarárið. Þúsundir kvenna hafa á þessu ári deilt reynslu sinni af ofbeldi. Konur hafa risið upp og vakið athygli á því misrétti og ofbeldi sem þær verða fyrir, krafist yfirráða yfir eigin líkama.

Konur verða fyrir ofbeldi á hverjum einasta degi í samfélagi okkar. Og sjaldnast er refsað fyrir þetta ofbeldi. Hvernig má það vera? Helmingur þjóðarinnar verður reglulega fyrir ofbeldi og við gerum ekki neitt. Eða allavega ekki nóg.

Umræðan er að þróast, en við þurfum að taka fleiri skref. Við þurfum að gera raunverulegar breytingar.

Fjöldi kynferðisbrotamála fer aldrei fyrir dóm. Undanfarið hafa einnig fallið sýknudómar sem margir eru hugsi yfir. Viðkvæðið er yfirleitt að þetta sé erfiður málaflokkur, sönnunarstaðan erfið, orð gegn orði o.s.frv. Þetta eru ekki nógu góð svör. Við getum ekki leyft þessu að vera svona lengur.

Má vera að það sé í grundvallaratriðum eitthvað rangt við það hvernig bæði menningin okkar og lagaákvæðin eru? Refsiákvæði hegningarlaga Íslendinga gera þá kröfu að ofbeldi, hótun um ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung sé beitt við samræði eða kynferðismök: þá er það nauðgun. Nauðgun er því ekki skilgreind sem ofbeldi sem slík, það verður að vera auka ofbeldi. Svona eru refsiákvæði fyrir nauðgun almennt í landslögum annarra ríkja heimsins, eða þá að krafist sé skorts á samþykki.

Alþjóðalög og samningar hafa þróast lengra en lög flestra ríkja og ekki er gerð þessi ofbeldiskrafa eða samþykkiskrafa. Í stuttu máli er nauðgun í alþjóðalögum skilgreind sem kynferðisleg innrás í þvingandi aðstæðum. Þvingunin getur verið sálfræðileg, efnahagsleg eða misnotkun á trausti. Gengið er út frá því að kynlíf sé almennt gagnkvæmt, og að skortur á gagnkvæmni leiði til þess að um nauðgun sé að ræða.

Lög eru meira en bara einhver tæknileg ákvæði sem lögmenn og dómarar beita. Lögin móta viðhorf okkar, hegðun okkar og menningu okkar. Það er kominn tími til að breyta lögunum, að semja nýja kynferðisbrotalöggjöf sem verndar okkur öll.

Þessi grein er hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×