Innlent

Nýja gistiskýlið skoðað

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Nýtt gistiskýli fyrir útigangsmenn er nú tilbúið og verður opnað á mánudaginn. Húsið er staðsett á Lindargötu og er mun stærra og nútímalegra en forveri þess.  Umsjónarmenn nýja gistiskýlisins fullyrða að nú verði engum vísað frá. 

Endurbætur á nýja gistiskýlinu við Lindargötu 48 hafa staðið yfir síðan í fyrra og var kostnaður við það um 120 milljónir króna. Í nýja gistiskýlinu eru herbergi og baðherbergi á tveimur hæðum en á þriðju hæð verður setustofa og matsalur.

Tryggvi Magnússon þekkir líf útigangsmanna af eigin raun, en hann starfar nú sem umsjónarmaður gistiskýlisins. Hann er að vonum ánægður með flutningana.

„Þetta er gjörbreytt aðstaða bæði fyrir gesti okkar og starfsmenn og er að öllu leyti til hins betra. Sturtu og þrifaðstaða er til að mynda miklu betri og rýmra um allt. Það er eiginlega ólýsanlegur munur,“ segir Tryggvi.

Starfsemi gistiskýlisins verður formlega flutt á mánudaginn, en þá verða húsgögn og rúm flutt frá Þingholtsstræti á Lindargötuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×