Lífið

Nýja Delí heillar

Frosti Logason skrifar
Eftir mjög langt og krefjandi ferðalag frá Reykjavík til Nýju Delí erum við félagarnir loksins lentir á áfangastað og fyrsti dagur að kvöldi kominn.

Ferðin tók eitthvað um 30 klukkutíma með tveimur millilendingum. Fyrst í Kaupmannahöfn og svo í Katar. Þetta var samt bara skemmtilegt og allt mjög áhugavert. Þannig að við erum ekki að kvarta.

Við komum á flugvöllinn hér í Delí um klukkan átta í morgun þannig að við ákváðum að skoða okkur frekar um heldur en að fara í rúmið, því það verður nægur tími til að sofa í ellinni.

Núna erum við orðnir nokkuð kunnugir hverfinu okkar í það minnsta og þá getur ævintýrið farið að byrja.

Við skelltum okkur líka á eina Bollywood mynd í dag í einu elsta kvikmyndahúsi borgarinnar og það var mjög áhugaverð upplifun. Indverjar elska Bollywood stjörnurnar sínar og þegar frægar og virtar leikonur birtust á tjaldinu klappaði salurinn og skríkti af ánægju.

Innfæddir eru allir mjög vinalegir og sumir jafnvel aðeins of, en skiljanlega vilja margir hér komast ofan í djúpa og útkýlda vasa okkar Evrópumannana, sem eigum allt til alls og lifum í vellystingum þrátt fyrir andlega örbirgð á köflum.

Við sjáum það strax að þessi ferð á eftir að verða mikil upplifun þar sem að við erum ekki einu sinni byrjaðir á allri þeirri dagskrá sem hefur verið skipulögð fyrir okkur. Þetta verður eitthvað.

Endilega fylgist líka með okkur á Instagram og facebook á #AsíAfríkA

Kveðja,

Frosti

Vinirnir Frosti Logason og Sigurður Þorsteinsson fara í haust í sex vikna ferðalag um Asíu og Afríku. Þeir ætla að leyfa lesendum Vísis að fylgjast með ferðalaginu í máli, myndum og myndböndum. Félagarnir fara meðal annars í safarí í Suður-Afríku, fara á brimbrettanámskeið á Balí og læra að kafa í Taílandi. Verkefnið gengur undir heitinu AsíAfríka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×