Viðskipti innlent

Nýherji hefur gengið frá kaupum á Hópvinnukerfum hf

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, er ánægður með kaupin.
Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, er ánægður með kaupin.
Stjórn Nýherja hf. (NYHR.IC) hefur gengið frá kaupum á öllum hlutum í Hópvinnukerfum ehf., FOCAL Software.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni kemur fram að fyrir kaupin átti Nýherji 42% hlut í félaginu en markmið Nýherja með kaupunum er að efla framboð á eigin hugbúnaðarlausnum. Allir starfsmenn Hópvinnukerfa hefja störf hjá félaginu.

„Hópvinnukerfi, sem var stofnað árið 1985, hefur sérhæft sig í gæða- og skjalastjórnunarlausnum, sem eru í notkun hjá fjölda fyrirtækja og stofnana. Hjá starfsfólki Hópvinnukerfa er einnig mikil þekking á IBM hugbúnaðarlausnum, Microsoft Sharepoint og námskeiðahaldi. Eitt meginmarkmið Nýherja er að efla þjónustu og framboð á hugbúnaðarlausnum og styrkja enn frekar stöðu félagsins sem alhliða þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni.

Kaupin falla afar vel að framtíðarsýn félagsins. Um leið og við bjóðum starfsfólk Hópvinnukerfa velkomið í öflugan hóp sérfræðinga Nýherja hlökkum við til þess að geta boðið viðskiptavinum okkar aukið framboð af snjöllum upplýsingatæknilausnum,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja í tilkynningu.

„Nýherji og Hópvinnukerfi hafa átt farsælt samstarf í 15 ár og sameiningin mun skila sér í öflugri og fjölbreyttari lausnum til viðskiptavina fyrirtækjanna. Áframhaldandi þróun innan vébanda Nýherja mun efla þjónustu við núverandi notendur FOCAL lausna, sem hefur ávallt verið okkar keppikefli,“ segir Hörður Olavson, framkvæmdastjóri Hópvinnukerfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×