Erlent

Ný tilskipun frá Trump: Stofnanir þurfa að fella tvær reglugerðir úr gildi fyrir hverja nýja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tilskipunin er í samræmi við kosningaloforð Trump en í kosningabaráttunni lýsti hann því ítrekað yfir að hann myndi skera niður fjölda reglugerða sem væru íþyngjandi fyrir viðskiptalíf Bandaríkjanna.
Tilskipunin er í samræmi við kosningaloforð Trump en í kosningabaráttunni lýsti hann því ítrekað yfir að hann myndi skera niður fjölda reglugerða sem væru íþyngjandi fyrir viðskiptalíf Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði í dag undir nýja tilskipun sem miðar að því að fækka reglugerðum í Bandaríkjunum. Reuters greinir frá.

Samkvæmt tilskipuninni þurfa alríkisstofnanir að fella tvær reglugerðir úr gildi áður en að ný reglugerð er sett.

„Þetta er stærsta skref í þessum málum í sögu Bandaríkjanna. Það verða reglugerðir, það verður eftirlit en eftirlitinu verður stýrt,“ sagði Trump skömmu eftir að hann skrifaði undir tilskipunina, umkringdur eigendum lítilla fyrirtækja.

Samkvæmt tilskipuninni mun Hvíta húsið einnig útbúa þak á kostnað nýrra reglugerða. Tilskipunin er í samræmi við kosningaloforð Trump en í kosningabaráttunni lýsti hann því ítrekað yfir að hann myndi skera niður fjölda reglugerða sem væru íþyngjandi fyrir viðskiptalíf Bandaríkjanna.

Þetta er sjöunda tilskipunin sem Trump skrifar undir sem forseti Bandaríkjanna en áður hafði hann meðal annars fyrirskipað um að múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó yrði byggður. Þá hefur tilskipun hans sem takmarkar flæði flóttamanna og innflytjenda til Bandaríkjanna valdið miklu fjaðrafoki.


Tengdar fréttir

Íslenskir þingmenn fordæma tilskipun Bandaríkjaforseta

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, mun koma áleiðis skýrum skilaboðum stjórnvalda sem fordæma tilskipun forseta Bandaríkjanna sem bannar ríkisborgurum sjö þjóða að koma til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×