Erlent

Ný tegund af tarantúlu nefnd eftir Johnny Cash

Birta Björnsdóttir skrifar
Bæði heimkynni köngulónna og litarhaft réðu því að hin nýfundna tegund var nefnd eftir tónlistarmanninum Johnny Cash.
Bæði heimkynni köngulónna og litarhaft réðu því að hin nýfundna tegund var nefnd eftir tónlistarmanninum Johnny Cash.
Vísindamenn uppgötvuðu á dögunum nýja tegund af svartri tarantúlu, en bæði heimkynni köngulónna og litarhaft réðu því að hin nýfundna tegund var nefnd eftir tónlistarmanninum Johnny Cash.

Köngulónni svipar talsvert til þekktari tegunda af tarantúlum og því er stutt síðan náttúrufræðingar í Bandaríkjunum báru kennsl á að um nýja tegund væri að ræða.

Karldýrið er sýnu svartara er áður þekktar gerðir köngulóarinnar en það var ekki eingöngu sú staðreynd sem varð til þess að hin nýja tegund er kennd við tónlistarmanninn Johnny Cash, sem líkt og kunnugt er klæddist iðulega svörtu frá toppi til táar eins og fram kom í tónlist hans.

Hin nýja tegund á nefnilega jafnframt heimkynni í vestanverðum Sierra Nevada fjöllunum, í nágrenni hins sögufræga Folsom-fangelsis.

Johnny Cash hélt fjölmarga tónleika í Folsom-fangelsinu á ferli sínum auk þess sem eitt hans þekktustu laga heitir einmitt Folsom Prison Blues.

Og fyrir áhugasama upplýsist það hér með að köngulóin heitir á fræðimáli Aphonopelma johnnycashi (Afónópelma Johnnycashi).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×