Erlent

Ný ríkisstjórn ósanngjörn í garð Wales

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May hefur myndað minnihlutastjórn með stuðningi DUP.
Theresa May hefur myndað minnihlutastjórn með stuðningi DUP. vísir/epa
Samkomulag Íhaldsflokksins á Bretlandi við hinn norðurírska Lýðræðislega sambandsflokk (DUP) um að styðja minnihlutastjórn fyrrnefnda flokksins er afar ósanngjarnt í garð annarra þjóða Bretlands. Þetta sagði Carwyn Jones, forsætisráðherra velsku heimastjórnarinnar, í gær.

DUP fær enga ráðherra í nýju ríkisstjórninni og er ekki um samsteypustjórn að ræða. Hins vegar verður milljarði punda, andvirði rúmlega 130 milljarða króna, varið í uppbyggingu á Norður-Írlandi á næstu tveimur árum. Önnur ríki muni ekki endilega fá álíka upphæðir.

„Þetta samkomulag drepur allar hugmyndir um sanngirni í garð þjóða og svæða Bretlands,“ sagði Jones í gær. Velska heimastjórnin hefur áður krafist sanngjarnra fjárveitinga.

BBC hefur eftir heimildarmanni sínum innan ríkisstjórnar Theresu May forsætisráðherra að Wales hafi hins vegar fengið ívið meira fjármagn en gæti talist sanngjarnt.

Fjárveitingar til heimastjórna á Bretlandi fylgja hinni svokölluðu Barnett-formúlu. Í gær sagði talsmaður Jones að ef þeirri formúlu yrði fylgt myndi Wales fá 1,67 milljarða punda til viðbótar. Samkvæmt heimildum BBC mun samkomulagið líklega ekki hafa áhrif á formúluna og því verði ekki af aukafjárveitingum til Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×