Innlent

Ný og fullkomin smásjá gangsett

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sævar Ingþórsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, ásamt Kristínu og Illuga.
Sævar Ingþórsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, ásamt Kristínu og Illuga. mynd/aðsend
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra gangsettu formlega nýja smásjá í húsnæði Lífvísindaseturs Háskóla Íslands í Læknagarði í dag. Smásjáin mun gjörbylta rannsóknamöguleikum vísindamanna Lífvísindasetursins.

Um er að ræða svokallaða confocal-smásjá af gerðinni Olympus FV1200. Confocal-smásjár býr yfir þeim eiginleikum að með leysigeislatækni er hægt að skoða staðsetningu prótína nákvæmlega í vefjum og frumum og byggja þrívíða mynd af því sem er að gerast, jafnvel í lifandi frumum. Þetta eykur rannsóknamöguleika Lífvísindaseturs til muna sem fyrr segir.

Smásjáin mun nýtast fjölbreyttum rannsóknarhópum vísindamanna sem starfa saman á vettvangi Lífvísindaseturs Háskóla Íslands.

Lífvísindasetrið hefur það m.a. að markmiði að samnýta tæki og aðstöðu og hvetja til samstarfs ólíkra rannsóknahópa en nú um stundir tengjast yfir 50 hópar setrinu. Þeir eru staðsettir í Læknagarði, Öskju, á Raunvísindastofnun, Landspítala - háskólasjúkrahúsi, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, í Háskólanum í Reykjavík og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Starfsfólk eru háskólakennarar, sérfræðingar og nemendur í sérhæfðu framhaldsnámi, alls um 120 manns.

Kaup smásjárinnar voru fjármögnuð með styrk úr Innviðasjóði Vísinda- og tækniráðs árið 2013 ásamt myndarlegu mótframlagi frá Tækjakaupasjóði Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×