Íslenski boltinn

Ný leið til að stela metrum í aukaspyrnum: Færa froðuna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Svo virðist sem fótboltamenn geti ekki komist í gegnum heilan leik án þess að stela metrum í aukaspyrnum eða innkasti.

Til að koma í veg fyrir þetta hafa dómarar víðsvegar um heiminn, nú meðal annars á Íslandi, notað sérstaka froðu til að merkja á völlinn hvar skal spyrna boltanum úr aukaspyrnum og hvar varnarveggurinn skal standa.

En Sindri Snær Magnússon, leikmaður Keflavíkur, er búinn að finna leið til að stela metrum þrátt fyrir að búið sé að spreyja froðu á völlinn.

Í 2-1 tapi Keflavíkur gegn Stjörnunni í gærkvöldi tók hann sig til og færði froðuna sem Valgeir Valgeirsson, dómari leiksins, var búinn að spreyja fyrir framan boltann þegar Keflavík fékk aukaspyrnu á nokkuð hættulegum stað.

Pablo Punyed, leikmaður Stjörnunnar, var fljótur að klaga og var spyrnan á endanum tekin á réttum stað, en engu að síður nokkuð heiðarleg - eða óheiðarleg - tilraun hjá Sindra Snæ.

Valgeir getur þó kannski kennt sér sjálfum um þar sem hann rétt svo spreyjaði litlum dropa fyrir framan boltann og gerði Sindra Snæ auðveldara um vik.

„Sérðu hvað þeir eru nískir á þetta?“ spurði Hjörvar Hafliðason þegar Pepsi-mörkin tóku þetta fyrir í gær. „Ég held þetta sé dregið af laununum hjá þeim,“ svaraði Hörður Magnússon.

Atvikið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×