Innlent

Ný humarmið fundin suður af landinu

Svavar Hávarðsson skrifar
Humar er orðinn svo eftirsóttur á innanlandsmarkaði að ekki fá allir sem vilja.
Humar er orðinn svo eftirsóttur á innanlandsmarkaði að ekki fá allir sem vilja. mynd/GHG
Íslenski humarflotinn hefur fundið ný humarmið – veiði hefur verið góð af stórum og fallegum humri í haust. Öflugur vöxtur ferðaþjónustunnar hefur gjörbreytt markaði með humar.

„Það var seinni partinn í ágúst sem skipstjórar humarbáta frá Þorlákshöfn reyndu fyrstir fyrir sér á þessu svæði. Þetta eru mjög velkomnar fréttir þar sem humarveiðin hefur verið dræm í sumar. Þetta er stór og fallegur humar og jöfn og góð veiði,“ segir Guðmundur H. Gunnarsson, framleiðslustjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Skinneyjar – Þinganess í Hornafirði, en um langt árabil hefur humarveiði íslenskra báta komið að stærstum hluta af sex grunnveiðisvæðum.

Nýju miðin munu vera utar og dýpra suðvestur af landinu en hefðbundin humarmið. Þetta og fleira verður kynnt á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í dag.

Guðmundur H. Gunnarsson, framleiðslustjóri Skinneyjar – Þinganess
Á sama tíma og nýfundin humarmið styðja við veiðar og vinnslu hefur Skinney – Þinganes unnið að þróun nýrrar aðferðar við að vinna humarkjöt úr kló krabbans – hráefni sem hefur hingað til verið að stórum hluta urðað eða brætt.

Guðmundur segir fyrirtækið þegar hafa fundið aðferð til að ná kjötinu úr klónni með ásættanlegri nýtingu, og undirbýr að setja upp litla vinnslu á athafnasvæði sínu í Hornafirði. Nú sé hins vegar eftir að taka skrefið frá frumframleiðslu til fullunninnar vöru – svo nú er horft til gæða- og markaðsmála. Vonir standa til að hægt sé að bjóða matgæðingum þessa nýju vöru strax á næsta ári við upphaf næstu humarvertíðar.

Samstarf við Matís hófst árið 2012 við að vinna úr gömlum pælingum sem settar voru fram í skýrslum frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. „Við veltum því upp hvort hægt væri, með aðferðum nútímans, að ná kjötinu nýtanlegu úr klónni,“ segir Guðmundur og bætir við spurður um markaðsmálin að það blasi við að byrjað verði á heimamarkaði.

„Það er gaman að segja frá því að markaðurinn fyrir humar hefur vaxið verulega á síðustu árum, og nú er eftirspurnin meiri en framboðið. Þetta er einn anginn af byltingu í ferðaþjónustu og íslenskir veitingastaðir eru orðnir mjög stórir viðskiptavinir. Lengi vel keppti innanlandsmarkaður ekki við útflutninginn og menn voru ekki tilbúnir að borga það verð fyrir heilan humar, og humarhala, sem bauðst erlendis. Þetta hefur breyst. Ég vona því að við séum að bjóða nýja og áhugaverða afurð sem er ódýrari en humarhalinn,“ segir Guðmundur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×