Innlent

Ný frístundamiðstöð fær nafnið Tjörnin

Atli Ísleifsson skrifar
Börn við vísindastörf í frístundamiðstöðinni Frostaskjóli sem nú hefur verið sameinuð Kampi og heitir Tjörnin.
Börn við vísindastörf í frístundamiðstöðinni Frostaskjóli sem nú hefur verið sameinuð Kampi og heitir Tjörnin. Mynd/Reykjavíkurborg
Ný sameinuð frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða hefur fengið nafnið Tjörnin.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að þetta hafi verið niðurstaðan eftir hugmyndasamkeppni meðal íbúa hverfa. Alls bárust 85 tillögur að nafni.

„Valnefnd, skipuð fulltrúum ungmennaráða, starfsmanna og hverfisráða, fór yfir allar tillögurnar og lagði fimm tillögur í opið val á netinu.

Á fimmta hundrað manns tók þátt í valinu þar sem niðurstaðan varð að kalla nýju frístundamiðstöðina Tjörnina. Nýja nafnið þykir vel við hæfi þar sem Tjörnin er í miðju hverfanna sem frístundamiðstöðin mun þjóna og sameiningartákn þeirra,“ segir í fréttinni.

Tjörnin verður til með sameiningu Frostaskjóls og Kamps í Þverholti og verður til húsa í Frostaskjóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×